144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

landbúnaðarmál.

[11:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tók þetta sem dæmi um að umræðan hér á Íslandi lætur oft að því liggja að tollar séu bara séríslenskt fyrirbrigði. Þeir eru það auðvitað ekki. Það er auðvitað ekki athafnaleysi okkar að kenna að ekki hafa náðst samningar við Evrópusambandið. Við höfum staðið fyrir slíkum viðræðum núna um nokkurt skeið en Evrópusambandið hefur frestað fundum núna í tvígang, því miður, því þar eru mjög jákvæðir hlutir að gerast, bæði fyrir íslenska framleiðendur til þess að flytja vöru á erlendan markað og einnig til þess að opna hér fyrir breytingar á innflutningi á ýmsum vörum.

Svo vil ég reyndar halda því fram að allur landbúnaður á Íslandi flokkist sem landbúnaður en ekki sem iðnaður, hvort sem það er ein grein eða önnur. Hér hefur verið stefnt að kjúklingarækt um langt skeið og menn bera það saman við mjög stóran iðnað sums staðar í öðrum löndum sem m.a. hefur kostað það að til þess að hægt sé að framleiða þá vöru þá hafa menn þurft að nota lyf í miklu magni. Ísland er í hópi þeirra ríkja þar sem er allra, allra minnst notað af slíkum aukaefnum, langtum minna en til að mynda langflest ríki Evrópusambandsins, svo það sé nú tekið fram.(Forseti hringir.)

Það er mikilvægt að búa um framtíð íslensks landbúnaðar með skýrum (Forseti hringir.) hætti. Ég held að þingmaðurinn hafi misskilið mig þegar ég sagði að (Forseti hringir.) auðvitað eru fyrirvarar um allt sem (Forseti hringir.) ríkið gerir, en þegar ríkið gerir samninga þá er væntanlega ætlast til (Forseti hringir.) að það standi við slíka samninga.