144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel það vera mjög brýnt að við ræðum hér á Alþingi vanda veikra byggða, atvinnuöryggi fólks í minni sjávarbyggðum og möguleika á að festa varanlegar aflaheimildir við sjávarpláss sem skilgreind hafa verið sem brothættar byggðir. Í vikunni lagði ég fram þingsályktunartillögu um eflingu brothættra byggða ásamt þeim hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Steinunni Þóru Árnadóttur. Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falið að vinna að framtíðarstefnumörkun um eflingu brothættra byggða í samráði við Byggðastofnun og aðra hagsmunaaðila. Gagnvart minni sjávarbyggðum verði meðal annars lögð til grundvallar byggðafesta aflaheimilda og einnig skoðað hvaða stuðningsúrræðum best er að beita svo auka megi vöxt og stöðugleika í veikum byggðum þar sem landbúnaður, matvælaframleiðsla og ferðaþjónusta eru grunnur byggðanna. Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því að ráðherra leggi fram sérstaka aðgerðaáætlun um eflingu brothættra byggða í fyrsta sinn næstkomandi haust og sé hún síðan samþætt áherslum stjórnvalda í byggðamálum.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sá mikli vandi sem fjöldi minni sjávarbyggða hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár þegar þær hafa misst frá sér aflaheimildir og óvissa og atvinnuleysi blasir við íbúum. Við getum farið hringinn í kringum landið og horft til staða eins og Raufarhafnar, Breiðdalsvíkur, Djúpavogs, Bíldudals, Tálknafjarðar, Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar og nú síðast bárust þær fréttir frá Hólmavík að hugsanlega yrði helmingur aflaheimilda Strandabyggðar seldur burtu. Slíkt óöryggi er ólíðandi og hefur áhrif á allt samfélagið, verðfellir eignir og grefur undan tiltrú fólks á sitt samfélag þar sem það hefur fjárfest og byggt upp sitt heimili og vill geta haldið áfram að búa en við sjálfsagt og eðlilegt búsetuöryggi. Sveitirnar glíma víða við viðvarandi fólksfækkun og lágar tekjur og verður að leita annarra leiða þar til að efla byggðir.

En veikar byggðir bæði til sjávar og sveita eiga það sameiginlegt að bregðast verður strax við og senda skýr skilaboð til íbúanna um að stjórnvöld ætli að sýna vilja í verki svo treysta megi grundvöll þeirra. Það er hægt að gera með ýmsum hætti ásamt því að byggðafesta aflaheimildir. Þar má nefna aukin tækifæri til menntunar, fjarvinnslu og fjarnáms, fjárfestingu í innviðum, styrkja nýfjárfestingar, ívilnanir fyrir smærri rekstur og byggja upp innviðina í ferðaþjónustunni svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnið Brothættar byggðir sem unnið var af Byggðastofnun og hófst árið 2012 á Raufarhöfn og árið eftir einnig í Skaftárhreppi, Breiðdalshreppi og á Bíldudal hefur sýnt og sannað að sú hugmyndafræði að vinna með heimamönnum að eflingu byggða með stuðningi frá stjórnvöldum er árangursrík leið og mikilvæg til að vinna áfram með og byggja ofan á.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftirfarandi spurninga:

Telur hæstv. ráðherra rétt að unnin sé framtíðarstefnumörkun um eflingu brothættra byggða?

Telur hæstv. ráðherra að byggðafesta eigi aflaheimildir með einhverjum hætti svo stuðla megi að tryggara atvinnuöryggi minni sjávarbyggða sem flokkast undir brothættar byggðir og misst hafa frá sér varanlegar aflaheimildir?

Telur hæstv. ráðherra að verkefnið Brothættar byggðir sem hófst árið 2012 hafi skilað árangri og þá hverjum helst? Og hvernig telur hann rétt að vinna með það áfram?

Með hvaða hætti telur hæstv. ráðherra að efla megi stuðning við aðrar brothættar byggðir þar sem sjávarútvegur er ekki til staðar og landbúnaður eða ferðaþjónusta eða önnur atvinnustarfsemi er meginstarfsemin?

Í lokin vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann telji að skjóta megi fleiri stoðum undir byggðir sem fyrst og fremst hafa byggst á sjávarútvegi og landbúnaði og standa nú veikt.

Ég tel að við þurfum að senda íbúum veikra byggða mjög skýr skilaboð frá Alþingi. Það er óviðunandi að íbúar þessara staða búi frá ári til árs við það óöryggi að vita ekki hvort það verði atvinna áfram, hvort þeir þurfi að flytja burt með fjölskylduna og rífa sig upp og fara frá eignum sínum eins og blasir við víða. Nýjustu dæmin eru Þingeyri og Flateyri þar sem mikið óvissuástand er enn þá. Þetta fólk hefur borgað sína skatta og staðið undir sínum skyldum gagnvart samfélaginu. Það verður að horfa til þess að þetta eru ekki annars flokks íbúar, þetta eru íbúar sem eiga það inni hjá okkar samfélagi að stjórnvöld ákveði: Eiga þessar byggðir að lifa? Ef svo er ekki (Forseti hringir.) þá er réttara að það komi skýrt fram.