144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það þarf nýja sýn í byggðamálum, bæði gagnvart þeim sem eru skilgreindar brothættar byggðir í dag svo og ýmsum öðrum byggðarlögum sem gætu orðið brothættar byggðir eftir nokkur ár. Það er athyglisvert að á íbúafundum sem hafa verið haldnir í þeim fjóru byggðarlögum sem eru skilgreind á þennan hátt í dag hafa atvinnumál alltaf verið efst í huga fólks um hluti sem þarf að lagfæra. Þess vegna verða auknar byggðatengdar fiskveiðiheimildir að koma til og þá er það spurning hvort þessi 5,3%, sem tekin eru frá, eru nægjanleg. Ég held að það þurfi að auka það og eigi að skoða alvarlega að taka makríl þar inn líka.

Varðandi uppbyggingaráform þekki ég best til á Raufarhöfn. Þar er dæmið sett upp með byggðakvóta sem var svo margfaldaður með viðbót, það er dæmi um 11 mánaða vinnu fyrir 40 manns, það er í fyrsta skipti sem ég hef séð svona góða áætlun hvað það varðar. Það sýnir sig að auknar fiskveiðiheimildir þurfa alltaf að vera grunnurinn á þessum stöðum eins og það var þegar þeir byggðust upp.

Ég sagði í upphafi máls míns að það þurfi nýja sýn. Ég hika ekki við að halda því fram að við þurfum að fara að horfa meira til skattkerfisins og skattafslátta hvað varðar brothættar byggðir og litlar byggðir úti um landið og dreifbýlið, að það eigi að koma þar inn, eins og talað hefur verið með byggðaáætlun en kannski lítið gert af.

Hinar skandinavísku þjóðir hafa notað þessar leiðir lengi. Lægri skattar á landsbyggðinni koma til móts við litla eða enga opinbera þjónustu, það er dýrt að sækja sér opinbera þjónustu og fiskveiðistefna stjórnvalda undanfarin ár hefur verið í því formi að það hefur átt sér stað samþjöppun og breytingar í útgerðarmynstri sem þarf að koma á.

Ég held (Forseti hringir.) að ef við viljum sýna verulegan dug eigum við að fara inn í skattkerfið og skoða þar leiðir að hætti nágrannalanda okkar.