144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það hefur komið í ljós að þingmenn almennt eru fylgjandi því að horft sé til veikra byggða og reynt að efla þær og styrkja. En ég vil líka taka það fram að þær eru ekki að kalla eftir neinni ölmusu. Þær kalla eftir því að fá að lifa með sjálfbærum hætti af þeim landsins gæðum sem urðu til þess að þessar byggðir byggðust upp á sínum tíma. Það er bara réttlætismál, hvort sem við tölum um byggðakvóta eða annars konar stuðning, og sjálfsagður réttur þessa fólks, afkomenda þeirra kynslóða sem hafa byggt þessi þorp og sveitir upp að við, sú kynslóð sem stödd er hér í dag og stjórnar þessu landi, sýnum því þá virðingu að skila aftur til baka því sem hefur verið tekið frá þessum svæðum með stjórnvaldsákvörðunum, hvort sem það er í kvótakerfinu, í landbúnaði eða í sjávarútvegi eða með öðrum hætti. Við getum gert þetta ef viljinn er fyrir hendi.

Það er talað um að sátt sé um 5,3% í byggðalegum aðgerðum í núverandi kvótakerfi. Það er engin sátt um það og það er heldur ekki sama hvernig þeim hluta er ráðstafað. Í dag er engin byggðafesta aflaheimilda, svo það sé skýrt sagt. Það er ekki. Byggðakvótinn kemur og fer og er ekki bundinn neinum byggðum í dag. Það er alger óvissa hvernig hann er. Það sem ég er að tala um er að byggðafesta aflaheimilda verði þannig að aflaheimildir séu til staðar til framtíðar með einum eða öðrum hætti fyrir veikar byggðir og skapi þannig grundvöll og öryggi fyrir það fólk sem býr þar. Eins og fyrirkomulagið er í dag þýðir það að eignir eru verðlausar og fólk hefur enga framtíðarsýn fyrir sig og sína fjölskyldu. Ég held að við sem búum á höfuðborgarsvæðinu eða aðrir landsmenn sem búa í þéttbýli ættu að setja sig í spor þessa fólks og reyna að vinna út frá því. (Forseti hringir.)

En ég tel að þessi umræða hafi verið góð og heyri að hæstv. ráðherra er jákvæður og ég vona að sú þingsályktunartillaga sem ég og fleiri í Vinstri grænum höfum lagt fram sé innlegg í þessa umræðu, og hún sýnir viljann í verki.