144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[11:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að það skipti miklu máli að betur sé vandað til stjórnarfrumvarpa en raunin er hér skiptir mestu í málinu að hér sé ekki snúið aftur til þeirra áhættusömu lánveitinga sem gengistryggð lán til almennings og fyrirtækja voru. Þess vegna er fagnaðarefni ef vilji ráðuneytisins er að vinna með efnahags- og viðskiptanefnd að því að gera breytingar á stjórnarfrumvarpinu þannig að tryggt sé að þeir sem slík lán kunni að fá verði að hafa tekjur í sama gjaldmiðli eða seljanlegar eignir í sama gjaldmiðli. Við verðum að læra af þeirri bitru reynslu sem veiting svona lána á árunum fyrir hrun var bæði fyrir fólk og fyrirtæki á Íslandi.