144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[12:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Af þessari ástæðu er mikilvægt að eftirlitsaðilar fylgist með því sem er að gerast hjá lánastofnununum á þessu sviði og hafi úrræði til að bregðast við ef áhætta er að byggjast upp í kerfinu af þeim toga sem hér er verið að ræða um. Síðan er alltaf álitamál hversu langt löggjafinn á að ganga hverju sinni til að fyrirbyggja að slík áhætta geti byggst upp, mögulega í framtíðinni, vegna þess að eftir því sem lengra er gengið þeim mun nær er gengið að frelsi einstaklinganna til að ráða fjármálum sínum sjálfir.

Í því sambandi er ágætt að nefna eitt dæmi. Ef við færum þá leið að segja að hér megi engir aðrir taka erlend lán en þeir sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum eða hafa miklar eignir í erlendum gjaldmiðlum gæti það ekki komið í veg fyrir að menn tækju íslensk lán og gerðu síðan aðra afleiðusamninga sem settu þá í raun í sömu stöðu, t.d. vaxtaskiptasamning sem segði: Ég ætla að borga vexti bandaríkjadollars eins og hann er í dag og losa mig undan vaxtagreiðslum samkvæmt þeim samningi sem ég er bundinn við í krónu. Svo mundi framtíðin leiða í ljós hvaða afleiðingar það hefði fyrir viðkomandi en þær væru í eðli sínu nánast þær sömu og hann hefði tekið erlent lán, þ.e. við náum aldrei að fyrirbyggja alla slíka áhættutöku, sama hversu langt við göngum.