144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[12:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Í fyrsta lagi er ég hlynntur því að menn njóti eins mikils frelsis sem einstaklingar og þeir geta á meðan það skaðar ekki aðra einstaklinga. Það er prinsippafstaða. Í öðru lagi búum hvorki ég né hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til fullkominn heim en það sem við erum að reyna að gera með þessu frumvarpi, frumvarpi sem við ræddum í gær, og ábyggilega fleirum sem koma síðar á þessu ári er að skapa veröld fjármála þar sem sem minnst hætta er á að það skapist stórar og miklar sveiflur sem geta haft ófyrirsjáanlegar og neikvæðar afleiðingar fyrir kjör þess fólks sem hæstv. ráðherra er kjörinn til að tryggja. Ég bendi í fyrsta lagi á að ég tel að leiðin sem hæstv. ráðherra er að fara, og ég kalla að leyfa þeim sem eru sterkefnaðir að njóta vafans og fá að spekúlera á markaði, kunni að vera óheppileg.

Ég bendi í öðru lagi á að ef maður reynir að skyggnast yfir tímans fláka svolítið lengra inn í framtíðina gæti kombinasjónin af þessu frumvarpi og því sem við ræddum í gær haft óheilladrjúgar afleiðingar. Ég veit að það er mjög önugt fyrir hæstv. ráðherra að velta fyrir sér þeim möguleika að banna alfarið lán af þessum toga til þeirra allra, fyrirtækja og einstaklinga, sem ekki hafa tekjur í erlendum gjaldmiðli en ég tel að það sé leið sem ekki er hægt annað en að skoða til þrautar í nefndinni. Það segi ég af tveimur ástæðum, það er ákveðið jafnræði í því fólgið þó að það kunni að vera skrýtið í augum hæstv. ráðherra en þar að auki dregur það úr líkunum á því að frelsi þeirra sem eru miklir eignamenn geti á endanum við sérstakar aðstæður haft óheppilegar (Forseti hringir.) afleiðingar á kjör þeirra sem ekki fá að njóta þessarar leiðar.