144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum. Tilefni þess að frumvarpið er lagt fram er að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ritaði ráðuneytinu erindi hinn 18. desember síðastliðinn og vakti athygli á að sjóðurinn liti svo á að fyrirtæki í slitameðferð teldust ekki fjármálafyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki og nytu innstæður þeirra því tryggingaverndar samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Jafnframt var vakin athygli ráðuneytisins á lagaóvissu um stöðu þessara innstæðna.

Tilgangurinn með frumvarpinu er að kveða skýrt á um að innstæður fyrirtækja sem svipt hafa verið eða skilað hafa inn starfsleyfi sínu sem fjármálafyrirtæki njóti ekki verndar innstæðutryggingakerfisins. Nánar er fjallað um erindi TIF í athugasemdum með frumvarpinu. Enginn þarf að velkjast í vafa um nauðsyn þess að lagalegri óvissu sé eytt um stöðu innstæðna þrotabúa fallinna fjármálafyrirtækja og því er mikilvægt að frumvarpið fái forgang hér í þinginu. Þegar ég nota orðið þrotabú þá er ég í raun og veru að vísa til þeirrar stöðu sem ég vísaði til að framan, fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Gert er ráð fyrir að frumvarpið öðlist lagagildi þegar í stað eftir samþykkt og birtingu.

Þar sem iðgjöld eru innheimt ársfjórðungslega og gjalddagi er mánuði eftir lok hvers ársfjórðungs er jafnframt mikilvægt að skýrt komi fram í gildistökuákvæðinu hvenær greiðsluskyldu í sjóðinn vegna innlána fyrrverandi fjármálafyrirtækja lýkur. Ekki er gert ráð fyrir að iðgjöld sem innheimt hafa verið á fyrri tímabilum vegna sömu innlána verði endurgreidd.

Þá að nokkrum atriðum sem skipta beint máli vegna stöðu innlánsstofnana og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Lög um fjármálafyrirtæki hafa verið í sífelldri endurskoðun. Eftirlitsheimildir hafa verið styrktar, ábyrgð stjórnenda aukin, öll ákvæði um tengsl og mikla áhættu verið efld, kröfur um fjárhagslegan styrk auknar og svo mætti lengi telja. Lögum um innstæðutryggingar hefur verið breytt. Sett hefur verið á laggirnar ný innstæðutryggingadeild og gengið frá fullum aðskilnaði skuldbindinga tengdum fjármálaáföllum og skuldbindinga tengdum innstæðum í hinum endurreistu fjármálafyrirtækjum. Sett hafa verið lög um fjármálastöðugleikaráð og ábyrgðarsvið og samstarf Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins skýrt. Allar hafa þessar breytingar stuðlað að öruggari fjármálamarkaði.

Þá er ónefnt að fjölmargir dómar hafa gengið sem tengdust fjármálahremmingunum og þeir hafa eytt óvissu sem vissulega var fyrir hendi þegar yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin út í október 2008 um að menn skyldu ekki hafa áhyggjur af innstæðum sínum. Sjóðsöfnun í hina nýju innstæðutryggingadeild TIF sem stendur til tryggingar innstæðum í þeim innlánsstofnunum sem nú eru starfandi hefur gengið vel. Eigið fé deildarinnar um síðustu áramót nam um 14,6 milljörðum kr. og hafði þá aukist um tæpa 4 milljarða frá árinu áður. Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar skulu aðildarríkin tryggja að eigi síðar en 2024 verði í innstæðutryggingarsjóðnum að lágmarki 0,8% af tryggðum innstæðum. Um síðustu áramót voru tryggðar innstæður 1.163 milljarðar kr. á innlánsreikningum hér á landi. Hefur TIF, þ.e. tryggingasjóðurinn, þegar yfir að ráða rúmum 5 milljörðum umfram þessar nefndu lágmarkskröfur.

Eins og gerð var grein fyrir hér að framan stendur yfir vinna við innleiðingu tveggja tilskipana Evrópusambandsins um innstæðutryggingar og um skilameðferð fjármálafyrirtækja. Er stefnt að því að unnt verði að leggja á haustþingi fram frumvörp til innleiðingar þeirra. Fjölmörg nýmæli og breytingar er að finna í þeim nýju tilskipunum um innstæðutryggingar. Má þar helst nefna sjálfa verndina. Í fyrsta lagi verður heimilt, þó að hámark sé sett á verndina, þ.e. 100 þús. evrur, að veita aukna vernd í tiltekinn tíma við sérstakar aðstæður svo sem við fasteignasölu og kaup. Í öðru lagi verður heimilt að veita innstæðum smærri sveitarfélaga vernd en í núgildandi reglum eru allar innstæður opinberra aðila undanþegnar vernd. Kveðið er nánar á um samstarf innstæðutryggingasjóða og skilameðferðaryfirvalda og skilasjóða sem nefndir eru á enskunni „resolution funds“. Bæði verður heimilt og raunar skylt að nýta fjármuni skilasjóða til að taka þátt í að fjármagna innstæðutryggingar og einnig, sem er mun líklegra við stærri áföll, að nýta sjóði innstæðutryggingakerfisins til að taka þátt í fjármögnun brúarbanka.

Í tilskipun um skilameðferð fjármálafyrirtækja er að finna ákvæði sem sum hver eru kunnugleg úr neyðarlögunum sem við afgreiddum í þinginu haustið 2008 þótt útfærslan sé mun ítarlegri í tilskipuninni. Rauði þráðurinn í þeirri tilskipun er tvíþættur; að vernda innstæður þeirra sem falla undir innstæðutryggingakerfi og koma í veg fyrir að kostnaður af áföllum í rekstri einstakra fjármálafyrirtækja lendi á sameiginlegum sjóðum. Nánar verður gerð grein fyrir þessum tveimur frumvörpum í fyllingu tímans. En að svo komnu máli er mikilvægt að við tökum af skarið varðandi stöðu fjármálafyrirtækja í slitameðferð og bregðumst við erindi tryggingarsjóðsins, sem segir að þar sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð teljist ekki fjármálafyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki njóti innstæður þeirra tryggingaverndar. Það er ekki ástæða til að viðhalda því ástandi og í öllu falli, sé þessi túlkun tryggingarsjóðsins rétt en um það má svo sem hafa ólíkar skoðanir, þá er skynsamlegt fyrir þingið að taka af skarið með þeirri breytingu sem hér er lögð til og undanskilja fjármálafyrirtæki í slitameðferð þessari tryggingavernd.

Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði frumvarpinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.