144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að það skapist eins breið samstaða og hægt er um þær aðgerðir sem verður ráðist í þegar menn fara að aflétta gjaldeyrishöftunum og þess vegna hef ég ekki verið að taka þátt í umræðum um þetta, en ég trúi hæstv. ráðherra fyrir því í fullri vinsemd að ég er töluvert krítískur á framgang mála. Ég er svolítið hissa á því langlundargeði sem hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt þessum búum. Ég hef auðvitað ekki aðgang að öllu því sem er að gerast og sit ekki í neinum nefndum og hef aldrei verið á palli þar sem ég hef getað fylgst með þessu nema bara í gegnum fjölmiðla, en mér virðist sem hæstv. ríkisstjórn hafi látið þessi bú mjög óáreitt. Í eina skiptið sem ég hef tekið til máls um þau mál hér þá fagnaði ég því þegar kom yfirlýsing í fyrra um það frá hæstv. ríkisstjórn að hún hygðist með einhverjum hætti setja tímanleg mörk á það hversu lengi þau gætu verið til. Það setur líka þrýsting á þau að „agera“.

Ég er svolítið ósammála hæstv. ráðherra um að slitabúin og bankarnir séu stór þáttur í afnámi gjaldeyrishaftanna sem þarf að leysa. Ég lít svo á að þau séu mesti óvissuþátturinn og kannski það sem er mikilvægast að leysa og ég er líka þeirrar skoðunar að það þyrfti helst að leysa það mál áður en menn ráðast í að taka stökkið allt. Ég get þá sagt að ég var ósammála hæstv. ráðherra fyrr á þessum vetri þegar hann talaði með þeim hætti í andsvörum til hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur að einhvern veginn væri hægt að sneiða hjá þeim og byrja að aflétta gjaldeyrishöftum með öðrum hætti, mér finnst það ekki algerlega ganga upp.

En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar um iðgjöldin. Sé það svo að ég og hæstv. ráðherra séum sammála um að þetta sé umdeilanlegt þá er það a.m.k. algerlega ljóst, miðað við að (Forseti hringir.) sjóðurinn hefur innheimt iðgjöld, að sjóðurinn hefur verið á öðru máli fram að þessu. Það er einfaldlega þannig. (Forseti hringir.) Þeir sem borga iðgjöld njóta verndar.