144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi mikilvægi þess að undanskilja slitabúin þá er það rétt hjá hv. þingmanni að það er miðað við reikninga og kennitölur en eins og lögin eru í dag þá er ekkert hámark. Það er lágmarkstrygging og krafan gæti étið upp allar eignir sjóðsins eins og við höfum þekkt dæmi um.

Síðan er það mjög skemmtileg umræða og áhugaverð um tryggingakerfi innstæðueigenda almennt. Sú umræða verður vafalítið tekin þegar frumvörpin verða tilbúin og koma fram í þinginu næsta haust eins og ég hef boðað. Það er engin ríkisábyrgð á bak við kerfið og innstæðutryggingakerfin eru gagnslítil í öllum meiri háttar fjármálaáföllum. Þau geta þó gripið smærri einstök fjármálafyrirtæki og bjargað þeim, en síðan er álitamál hvort stjórnvöld hvers tíma vilja framkvæma innstæðutryggingakerfið með þeim hætti að tryggingarsjóðirnir geti mögulega skuldsett sig til að taka meira á sig en er inni í sjóðnum á hverjum tíma gegn því að vinna það upp í framtíðinni, svipað og tryggingahugsun er oft byggð upp, þ.e. menn ganga í gegnum erfiða tíma og góða tíma. Þannig hafa sumir aðrir verið að leysa þetta. Aðalatriðið er samt að það sé alveg skýrt, eins og það er skýrt í dag og staðfest af EFTA-dómstólnum, það verður að vera alveg skýrt þegar við komum með uppfærslu af þessu tryggingakerfi að það er engin ábyrgð ríkisins að baki kerfinu. Ef sjóðirnir þurrkast upp vegna áfalla þá er engin skylda hjá ríkinu, hafi ríkið innleitt reglurnar (Forseti hringir.) eins og því ber að gera, til að bæta það sem upp á vantar.