144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann sagði að sjóðirnir gætu verið étnir upp. Það er enginn viðtengingarháttur þar, þeir verða étnir upp þó að það sé mínimal eða lítið tjón Ef jafnvel einn sparisjóður fer á hausinn og eigið fé dygði ekki fyrir innstæðum þá eru 14 milljarðar ekki neitt neitt til að bæta upp það tjón. Þá kæmi strax í ljós að þetta er gerviveröld, það er verið að veita gervitryggingu og innstæðueigendur fengju ekki neitt. Eins og margt annað sem Evrópusambandið kemur með — margt kemur gott frá Evrópusambandinu, en margt er til að búa til einhvers konar gerviveröld, búa til öryggi sem ekki er til eða til að sýnast, búa til öryggi sem ekki er til. Innstæðutryggingakerfið er mjög augljóst dæmi um það. Það gengur vel á meðan ekki gerist. En um leið og hið minnsta gerist, ef banki fellur með 20%, 30% markaðshlutdeild í viðkomandi landi sem er mjög víða í Evrópusambandinu þá er þetta engin trygging.

Þá er spurningin: Hvað gerist þá? Munu menn bara horfa á sparifjáreigendur éta upp innstæðutryggingarsjóðinn og hann hverfur og engin leið að bæta það og hvað svo? Á ríkið þá að sitja hlutlaust hjá og gera ekki neitt? Ég er ansi hræddur um að krafa verði um það, fyrst þetta heitir innstæðutryggingar og er sett af ríkisvaldinu, að ríkið hlaupi til. Í nýju tilskipununum sem á að innleiða í haust er m.a. gert ráð fyrir að borgað sé út innan sjö daga. Hver á að brúa bilið þessa sjö daga? Hver á að veita skammtímalán annar en ríkið?