144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að full ástæða sé til þess því að ég er að hluta til að heyra fréttir hér vegna þess að þetta hefur borið á góma og því hefur aldrei verið mótmælt að þær endurteknu yfirlýsingar tveggja ríkisstjórna væru áfram við lýði. Nú upplýsir hæstv. fjármálaráðherra að núverandi ríkisstjórn hafi í sjálfu sér ekki sérstaklega tekið þetta upp eða gert þetta að sinni yfirlýsingu. Gott og vel. En ég lít svo á engu að síður að hún þurfi þá, ef hún vill breyta ástandinu, að gera það með pósitífum hætti. Áttum við að taka þetta sem sérstaka yfirlýsingu um að þær eldri væru úr gildi fallnar? Það held ég ekki. Þetta var, að minnsta kosti í okkar tilviki, formlega rætt í ríkisstjórn og byggði á niðurstöðum ríkisstjórnarfundar. Ég held að í tvígang höfum við farið út með þetta til að fyrirbyggja allan óróleika, að yfirlýsing þáverandi fyrri ríkisstjórnar frá 2008 væri í fullu gildi og unnið yrði samkvæmt henni af okkar hálfu. Og það skipti máli og á þetta hefur reynt eins og kunnugt er.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra um að þetta sé í skoðun, að ríkið reyni að byggja upp málsástæður og endurheimta að einhverju leyti þann kostnað sem sannanlega hefur fallið á ríkið vegna þess að unnið var úr málefnum minni fjármálafyrirtækja sem lentu í vandræðum alltaf með því markmiði að tryggja allar innstæður en í einu tilviki að minnsta kosti, og óbeint má auðvitað segja í fleiri tilvikum, lenti kostnaður á ríkinu í þessum efnum. En það er algerlega augljóst mál og þarf ekki um það að fjölyrða að þetta er mál af þeirri tegund og þeirri stærðargráðu að það verður að vera algerlega skýrt hver hin formlega, lögformlega staða málsins er eða við skulum segja pólitíska þess vegna, gott og vel. (Forseti hringir.) Það verður þá tekið fyrir í fjármálastöðugleikaráði og þess er að vænta með einhverjum hætti fljótlega geri ég ráð fyrir að staðan skýrist að þessu leyti.