144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég vék að í máli mínu voru gefnar út yfirlýsingar á sínum tíma við þær aðstæður sem þá voru uppi og það var mikilvægt og það skilaði miklum árangri. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki séð ástæðu til að gera fyrri yfirlýsingu sérstaklega að sinni vegna þess að allt annað ástand er uppi. Nú kann að vera að menn meti það svo þrátt fyrir að það sé alveg skýrt að lögum að ríkið er ekki í ábyrgð fyrir innstæðum í íslenska fjármálakerfinu. Og ég vil líka minna á að við höfum gert ráðstafanir í lögum sem tryggja forgang innstæðna að eignum, ef upp koma slík tilvik að reynir á stöðu innstæðna, en ekki má taka það út úr þessu heildarsamhengi hlutanna að gerðar hafa verið lagabreytingar sem styrkja mjög stöðu innstæðueigenda.

Ég skal ekki útiloka að það kunni að vera mikilvægt fyrir kerfið að hnykkt sé sérstaklega á stöðunni og ég mun sjá til þess að það verði rætt í kerfisáhættunefnd og síðan í fjármálastöðugleikaráðinu í framhaldinu. En það ætti enginn að velkjast í vafa um hver hin lögformlega staða er og eins að auðvitað stendur vilji ríkisstjórnarinnar til þess að verja stöðu innstæðueigenda með öllum tiltækum ráðum og ganga eins langt í því efni og sanngjarnt og eðlilegt er að ætlast til af stjórnvöldum á hverjum tíma, en núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar ekki gefið út eitt allsherjarblankógarantí.