144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel engu að síður að þessi orðaskipti hafi verið upplýsandi og ég er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að hin formlega staða í þessum efnum sé skýr. Lögformlega staðan er ein, það er rétt, og þar eru innstæður forgangskröfur, því hefur ekki verið breytt. En undanfarin missiri hefur staðið yfir vinna við að móta framtíðarfyrirkomulagið um slit fjármálafyrirtækja og í millitíðinni gilda ákvæði sem komu með neyðarlögunum um forgang innstæðna. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að þau eigi að gera það áfram, en þetta er mál af því tagi að ekki má ríkja nein óvissa í kringum það, jafnvel þó að svo sé. Svo er réttilega bent á að aðstæður séu gerbreyttar og við erum með stóru bankana mjög sterkt fjármagnaða með ærið eigið fé og rúma lausafjárstöðu, þannig að engin ástæða er til að gera því skóna að það sé nokkur áhætta á áhlaup þar eða vandræði, en það er auðvitað aldrei hægt að útiloka að einhvers staðar komi upp vandkvæði hjá einhverjum minni fjármálastofnunum eða að skapast geti eitthvert tortryggnisandrúmsloft og þá þarf það að vera mjög skýrt; hver er staða innstæðueigenda í því tilviki. Það er algerlega ástæðulaust að skapa nokkurs staðar óróleika þar sem þess er ekki þörf eða hægt er að komast hjá því.

Út af fyrir sig þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Þau hafa skýrt stöðu málsins. Ég mæli með því að hann láti lögfræðinga líta á það, einfaldlega út frá almennri festu í stjórnsýslunni, hvort það yrði ekki að margra dómi talið svo að skýrar yfirlýsingar tveggja undangenginna ríkisstjórna, sem ekki hafa verið felldar úr gildi með nýrri ákvörðun þeirrar sem situr, teljist hafa þá stöðu að þær séu enn við lýði, þó það kunni að vera hárrétt, og ég efa ekki að hæstv. ráðherra fer þar rétt með, að núverandi ríkisstjórn hafi ekki pósitíft lýst því yfir að þær séu framlengdar sem slíkar.