144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er afskaplega mikilvægt, eins og bent er á hér, að staðan varðandi innstæður í landinu sé skýr. Á sínum tíma þótti mikilvægt að taka af skarið með það hvort stjórnvöld væru reiðubúin til að ganga lengra þrátt fyrir að við hefðum innstæðutryggingakerfi. Það var vegna þeirra aðstæðna sem þá voru uppi. Þess vegna voru gefnar út ítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem stóðu sem pólitískar yfirlýsingar um að stjórnvöld mundu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að verja stöðu innstæðueigenda. Það voru pólitískar yfirlýsingar í sérstökum aðstæðum. Þeim var síðan fylgt eftir. Ég hef nefnt hér að lögum var breytt og innstæður fengu forgang að eignum ef farið væri í slitameðferð. Hér hafa líka verið nefnd dæmi um einstaka aðgerðir ríkisstjórnarinnar eins og í tilfelli SpKef þar sem fjármálafyrirtæki var sameinað Landsbankanum og meðgjöf þurfti að koma frá ríkinu. Grunnur þess máls lá í því að þar var verið að verja innstæðueigendur. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við höfum mun sterkara fjármálakerfi hér og það er engin aðsteðjandi hætta í sjálfu sér sem kallað hefur á að ríkisstjórnin gerði þessar fyrri ályktanir sérstaklega að sínum.

Höfum það líka í huga í þessari umræðu að það var alveg sérstök og sterk málsástæða íslenska ríkisins fyrir EFTA-dómstólnum í Icesave-málinu að innstæður nytu ekki verndar ríkisins og sú málsástæða hélt þrátt fyrir að þessar pólitísku yfirlýsingar hefðu verið gefnar á sínum tíma. Þess vegna segi ég: Það hefur ekkert kallað á að sú ríkisstjórn sem nú situr ítreki fyrri yfirlýsingar um þessi efni. Þó kann að vera að einhvers staðar í fjármálakerfinu eða í umræðu, m.a. hér í þingsal, sé ástæða til að taka af skarið með meira afgerandi hætti en gert hefur verið (Forseti hringir.) og ég hef reynt að fara hér yfir í dag. (Forseti hringir.) Ég mun ræða það á vettvangi stöðugleikaráðsins.