144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er allt rétt sem sagt er hér að það skiptir máli hvernig um þessi mál er rætt með sama hætti og ég hef hér lýst því hvers vegna íslenska ríkisstjórnin hefur ekki séð ástæðu til að gera yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar sérstaklega að sínum. Það er vegna þess að það er ekkert í umhverfinu sem kallar á að stjórnvöld ítreki einhvern vilja sinn til að grípa inn í. Það er engin yfirvofandi hætta og ég tel að þær yfirlýsingar sem gefnar voru á sínum tíma hafi þjónað sínum tilgangi og að þeirra tími sé í raun og veru liðinn.

Með sama hætti og það er allt mikilvægt er líka mikilvægt að hafa það í huga, af því að hér eru haftamálin nefnd og staða íslenska fjármálakerfisins, hversu gerbreytt staðan er í raun frá fyrri tímum. Ég leyfi mér að nefna sem dæmi stöðu Landsbanka Íslands sem seldur var til einkaaðila á sínum tíma í skrefum, en stór hluti sölunnar átti sér stað á árinu 2002. Ég tel að ég muni það rétt að þá hafi heildar eigið fé bankans verið rétt um 16 milljarðar og eiginfjárhlutfallið hafi verið vel fyrir innan 10%. Í dag er þessi sami banki ekki með 16 milljarða í eigin fé heldur 250 milljarða og eiginfjárhlutfall í kringum 25% þannig að hafi menn ekki haft ástæðu þá til að vera með einhverjar yfirlýsingar um að ríkið stæði að baki innstæðunum eða mundi bregðast við ef eitthvað kæmi upp á þá er svo sannarlega síður tilefni til þess í dag. Við eigum að ganga út frá því að í lögum sé að finna reglur sem um slík mál gilda ef á reynir. (Forseti hringir.) Að öðru leyti á ekki að þurfa að vera með reglulegar pólitískar yfirlýsingar.