144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:06]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það beri að gera allt sem mögulegt er til að draga úr áhættu bankanna, til að draga úr þeirri áhættu sem ríkið er að taka á sig með því að leyfa bönkum að starfa á þann hátt sem gert er í dag, leyfa þeim að búa til gjaldmiðilinn og vera í þeirri stöðu að allt efnahagskerfið er háð því að þessi gjaldmiðill virki sem rafrænar lausar innistæður, ef við köllum það svo. Það eru vissulega til ýmsar leiðir til að draga úr þeirri áhættu, aukið eigið fé er ein slík leið sem við ræddum hér í gær.

Jafnvel það að setja upp innstæðutryggingarsjóð getur, eins og fram kom í umræðum fyrr í dag, hjálpað til við að bjarga innstæðum í litlum bönkum án þess að kostnaður falli á ríkissjóð. En ef einhver af stóru bönkunum þremur fellur er óhjákvæmilegt annað en ríkissjóður komi inn og fylgi eftir þeirri ábyrgð sem verður að fylgja eftir og það getur kostað ríkissjóð mörg hundruð milljarða. Ég held að það sé bara eðlilegt á meðan við erum með bankakerfi af þessari tegund, þar sem við leyfum kerfislega mikilvægar stofnanir sem eru svo stórar, að þær stofnanir greiði gjald vegna þess að í dag njóta þær í raun ríkisábyrgðar. Með þessari ríkisábyrgð fá þær að fjármagna sig með lægri vöxtum, með því að gefa út innstæður, en þær greiða ekkert gjald fyrir þetta heldur skapar þetta bara hjá þeim hagnað. Og af því að það er fákeppni á markaði rennur sá ofurhagnaður ekki til viðskiptavina þessara stofnana heldur verður hann eftir hjá hluthöfunum og nú eru þær að skila 80 milljarða hagnaði.

Það sem ég er að leggja til er að þessar þrjár stofnanir mundu greiða 20 milljarða í ábyrgðargjald. Ég held að það væri bara sanngjarnt vegna þess að 20 milljarðar af þessum hagnaði eru til komnir að mínu mati vegna þess að þeir njóta ríkisábyrgðar. Ég held að það sé ekki gætilegt að taka úr sambandi áhuga neytenda á því að kynna sér hvaða áhættu stofnunin er að taka, innlánsstofnunin. Nú er þeim bara sagt að það sé ríkisábyrgð á öllu saman og innstæðutryggingar, hvaða ástæðu hafa neytendur til að veita þessum stofnunum aðhald þegar búið er að búa til svona kerfi sem blekkir þá til að halda að þetta sé allt öruggt?