144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hafi hv. þingmaður hlustað grannt á allt það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér á þessum morgni þá kann nú að verða uppstytta í því. Ég skildi orð hæstv. ráðherra á þann veg að hann væri innan skamms á leið til fundar við kerfisáhætturáð hugsanlega til að skoða hvort breyta ætti þeim skuldbindingum sem fælust í pólitískum yfirlýsingum fyrri ríkisstjórnar, og ég hvatti hann til að skoða það. Ég segi bara hreinskilnislega, ég er tilbúinn til að ræða þessi mál alveg til þrautar og tel að við eigum að nota þau tækifæri sem nú eru, góða stöðu og umbreytingaskeið, til að kanna hvort með einhverjum hætti sé hægt að breyta kerfinu til batnaðar. En herra trúr, ég er ekki reiðubúinn á þessari stundu til að segja já við spurningu sem ég tel að fæli í sér fortakslaust að ef einn af okkar bönkum mundi af velli falla þá mundi ríkið vera skuldbundið, væntanlega að lögum, til að taka á sig skellinn sem gæti orðið hundruð milljarða. Nei, ég er ekki reiðubúinn til að segja já við því á þessari stundu.