144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:37]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur. Að sjálfsögðu var ég ekki að ákveða að setja á slíkan skatt heldur að varpa fram hugmynd og ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur spunnist út af þessari hugmynd. Auðvitað er gott að gagnrýna slíkar hugmyndir og benda á hvað megi betur fara, en mér heyrðist hv. þingmaður vera alfarið á móti því að af þeim hagnaði sem bankarnir hafa vegna þessarar ríkisábyrgðar renni nokkur króna í ríkissjóð. Hins vegar hlýtur hann að vera sammála mér í því að bankarnir eru í fákeppnisumhverfi. Þeir búa í raun ekki við fulla samkeppni enda hef ég óvíða rekist á svokallaða fullkomna samkeppni nema bara í kennslubókum hv. þingmanns. Fullkomin samkeppni getur ekki orðið þar sem þrír aðilar eru á markaði og stórar hindranir eru til inngöngu og erfitt að komast inn á þann markað. Þess vegna verður töluvert mikið af þessum sérstaka hagnaði bankanna vegna þess að þeir njóta ríkisábyrgðar á innstæðum, þ.e. skuldahlið bankanna, sem er að stóru leyti innlán, innstæður, er niðurgreidd. Vaxtakjörin eru svo lág eins og hv. þingmaður nefndi vegna þess að almenningur treystir því að það sé ríkisábyrgð á innstæðum. Bankarnir njóta ríkisábyrgðar á lánum sínum sem þeir taka á markaði hjá almenningi í formi innstæðna og halda eftir þessum sérstaka mun í staðinn fyrir að hann renni til þess sem veitir ríkisábyrgðina, ríkissjóðs sjálfs. Finnst hv. þingmanni það ekki að minnsta kosti sjónarmið að bankarnir greiði fyrir þessa ríkisábyrgð sem er, þótt hún sé ekki endilega lögum samkvæmt veitt, bara óhjákvæmileg, vegna þess að ekki getum við séð svona bankastofnun falla án þess að gera eitthvað í því?