144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:39]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Framsetning hv. þingmanns á þessu 4% gjaldi var með þeim hætti að hér væri um almenna tekjuöflun fyrir ríkissjóð. 80 milljarða kr. hagnaður bankanna á síðasta ári er í raun ekki af rekstri þess árs heldur að hluta til af uppgjörum og skuldum frá eldri tíð, þannig að viðmiðun við það skiptir ekki máli. Frumvarpið sem hér er til umræðu er fyrst og fremst til þess að fella niður innstæðutryggingar af innstæðum banka, innlánsstofnana, sín á milli, þannig að þessar hugleiðingar hv. þingmanns koma í raun frumvarpinu ekkert við. Hér kemur væntanlega annað frumvarp til umræðu síðar um innstæðutryggingarsjóð og þar getur þingmaðurinn reifað þetta sjónarmið, en það sem er verið að reyna að gera með innstæðutryggingarsjóðum er fyrst og fremst að reyna að komast hjá því að hér verði ríkisábyrgð á bönkum. Ef hv. þingmaður vill endilega knýja það í gegn að hér verði ríkisábyrgð þá getur hann farið með þessum himinskautum, (Gripið fram í.) en það verður líklega óþarfi vegna þess að íslenskir bankar verða ekki til með þessu gjaldi, þeir verða alveg úr takt við stöðu fjármálastofnana. Og hið eðlilega er náttúrlega að Íslendingum verði gefinn kostur á því að eiga viðskipti við banka í öðrum löndum ef hugmyndir hv. þingmanns ná fram að ganga.

Ég tel hins vegar mjög eðlilegt, fyrst ég er kominn hér í andsvar þá ætla ég að nota þessar sekúndur sem ég á eftir til að nefna það, að fella niður ábyrgð innstæðutryggingarsjóðs á innstæðum milli banka vegna þess að bankar eiga fyrst og fremst að eiga viðskipti við Seðlabanka og miðla þannig fé sín á milli. Þannig að ég held að þessar hugmyndir hafi ekki átt við þetta frumvarp og koma þessu máli ekki við, en þar fyrir utan held ég að þær séu víðáttugalnar. Ég hef lokið máli mínu.