144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[13:53]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti, nefndaráliti minni hluta um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Frumvarpið sem er til umræðu fjallar um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Hefst nú lestur minnihlutaálitsins:

Minni hlutinn telur frumvarp þetta með öllu óþarft og telur að það gangi í raun þvert á grunnatriði í fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða. Það er grundvallaratriði við útreikning réttinda sjóðsfélaga í lífeyrissjóði að með því að eignir sjóðanna séu í virkum viðskiptum á markaði er hægt að áætla hreina eign til greiðslu lífeyris. Breyting sú sem hér er til umfjöllunar tekur sérstaklega til fjárfestinga á markaðstorgi fjármálagerninga.

Með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpi þessu, að teknu tilliti til breytingartillögu, er aukið svigrúm til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum. Heimild til kaupa á óskráðum eignum er nú 20% en verður 25% af hreinni eign. Það að hækka þessi mörk er í raun neyðaraðgerð vegna fárra fjárfestingarkosta vegna fjármagnshafta og gjaldeyrishafta. Heimild til að fjárfesta á markaðstorgi fjármálagerninga er nú þegar fyrir hendi innan þeirra 20% sem heimilt er að fjárfesta í óskráðum bréfum þar sem verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga teljast ekki til verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði og því fari um þau sem önnur óskráð verðbréf skv. 3. mgr. 36. gr. laganna.

Aðgerðin er í raun til þess eins að festa í sessi hömlur á erlendum fjárfestingum lífeyrissjóða og þar með auka á innlenda áhættu lífeyrissjóða. Minni hlutinn telur ekki rétt að samþykkja þetta frumvarp en vísað er til þess að nú er að störfum nefnd til að kanna breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.

Ég ætla ekki að útskýra þetta frekar. Ég tel að fjárfestingarheimildir og starfsemi lífeyrissjóða byggist á samkomulagi milli stéttarfélaga og atvinnurekenda. Löggjöfin frá 1997 byggðist á margra ára vinnu og lífeyrissjóðir, stéttarfélög og atvinnurekendur hafa ekki óskað eftir þessari breytingu. Það er eins og fyrr segir verið að athuga með fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Það að þetta auki ávöxtun lífeyrissjóða er með öllu óvíst. Þau smáu fyrirtæki sem um er að ræða kunna líka að auka á tap lífeyrissjóða. Ég ætla ekki að bera ábyrgð á þessari breytingu og legg því eindregið til að þetta verði fellt. Ég sé að vísu að það eru fulltrúar allra flokka á meirihlutaálitinu, en við skulum sjá til á efsta degi hvernig málum leiðir fram.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi þetta ekki lengra að sinni og ætla að flýta fyrir störfum þingsins.