144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[13:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á dauða mínum átti ég nú von en ekki þessu frá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni. Ég hélt að hann væri framsæknastur allra þingmanna hér og frjálslyndastur í öllu fasi en ég get ekki séð betur en þetta nefndarálit hans beri vott um hið harðasta afturhald.

En eina spurningu hef ég handa hv. þingmanni því að hér kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra í morgun að nú sæist til lands í því að losa höft en hv. þingmaður segir hér að það frumvarp sem hér er til meðferðar sé til þess fallið að festa fjármagnshöftin í sessi, þ.e. að það að hækka þessi mörk, þetta sé neyðaraðgerð. Ég spyr: Hefur hv. þingmaður ekki trú á foringja sínum, hæstv. fjármálaráðherra, sem segir hér í morgun að nú sjáum við til lands í því að losa þessi höft? Trúir hann ekki þeim orðum foringja síns?

Að öðru leyti langar mig líka til að vekja athygli á því að lífeyrissjóðir eru að hrekjast í það hér innan lands að fjárfesta í alls konar samkeppnisrekstri. Nýjasta dæmið er í gær, þeir voru, án þess að ég hafi nú mikið á móti þeirri starfsemi, að fjárfesta í pítsugerð sem hefur starfsemi víða um land. Finnst þingmanninum virkilega ekki nær að lífeyrissjóðir hafi tækifæri til að fjárfesta í fyrirtækjum sem skapa alvöruhagvöxt og skapa fleiri störf o.s.frv.? Eins og ég segi: Ég er ekki að gera lítið úr pítsubökurum en finnst hv. þingmanni virkilega ekki nær að fé lífeyrissjóðanna sé ávaxtað í því góða markmiði að efla hagvöxt og atvinnustig?