144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil nú ekki sumt í þessum andsvörum hv. þingmanns en ætla þó að endurtaka það að lífeyrissjóðirnir hafa nú þegar heimild til að fjárfesta 20% af ráðstöfunarfé sínu og eignum í óskráðum fyrirtækjum. Þar undir eru þessi félög á markaðstorgi fjármálagerninga. Ég tel langt gengið að auka þetta upp í 25%. Það er hægt að fjárfesta í þessum fyrirtækjum innan þessara 20%. Ég tel að ekki eigi að auka áhættu og nota eignir lífeyrissjóðanna til áhættufjárfestinga af þessu tagi til sprotafyrirtækja. Einstök fyrirtæki sem eru undir í Kauphöllinni geta farið með lítinn hluta af ráðstöfunarfé sínu til þess en ég tel ekki rétt að nota lífeyrissjóðina í þessum tilgangi. Hv. þingmaður getur kallað þetta afturhald en ég hugsa til lífeyrisþega en ekki til fyrirtækjanna.