144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fá að eiga orðastað við hv. þingmann vegna þessa nefndarálits sem vekur töluverða furðu hjá mér og nokkrar spurningar og virðist ala á misskilningi um tilgang frumvarpsins og að hverju er stefnt.

Hér er talað um að nái frumvarpið fram að ganga gangi það þvert á grunnatriði í fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna, það auki svigrúm til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum, það sé neyðaraðgerð vegna fjármagnshaftanna, það sé til þess fallið að festa gjaldeyrishöft í sessi — öllu snúið á hvolf. Ég vildi bara spyrja hv. þingmann: Telur hann það ganga gegn grunnatriðum í fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða að þeim standi til boða fleiri góðir valkostir? Það er enginn hér að tala um að neyða þá til að fjárfesta í þessum fyrirtækjum heldur að hvetja fyrirtækin til að uppfylla frekari kvaðir til að gera þau betri og fjárfestingarhæfari fyrir lífeyrissjóði og það er verið að gera greinarmun á óskráðum verðbréfum. Er ekki hv. þingmaður sammála því að í lögum um markaðstorg fjármálagerninga eru strangari kvaðir settar á útgefendur slíkra bréfa en gerðar eru almennt til hlutafélaga þannig að það er hægt að gera greinarmun að þessu leyti? Sér ekki hv. þingmaður þennan mun og er hann ekki sammála því að kenningar um samval fjárfestingarkosta gangi út frá því að áhætta aukist eftir því sem fábreytni slíkra safna er meiri? Jafnvel þó að sumir þessara fjárfestingarkosta séu áhættusamir í sjálfu sér þá er mikilvægt að auka fjölbreytnina, að þeir séu ekki allir eins, að þeir séu ólíkir í eðli sínu. Það gerðist hérna eftir hrun, eins og hv. þingmaður man eflaust mjög vel, að þeir ágætu fjármálagerningar sem skráðir voru á aðallistann og nutu alls þess trausts sem því fylgir og lífeyrissjóðunum var heimilt að fjárfesta alveg ótakmarkað í féllu um 90% í verði.