144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur kannski ekki alveg svarað spurningu minni um hvort ekki sé einhver munur á því lagalega hvort fyrirtæki uppfylla skyldur hlutafélagalaganna eða hinar auknu skyldur sem eru lagðar á fyrirtæki á markaðstorgi fjármálagerninga, en látum það liggja á milli hluta.

Við erum alveg sammála um að lífeyrissjóðir ættu að dreifa áhættu sinni og ættu að dreifa áhættunni til stórra og lítilla fyrirtækja og til útlanda, til hinna ýmsu landa. Helmingurinn af neyslu okkar á Íslandi í ellinni verður hvort sem er í innfluttum varningi og það er sjálfsagt að lífeyrissjóðir setji allt að helming af eignum sínum í erlendar fjárfestingar. Okkur greinir ekki á um það. Ég held að það sé ekkert í frumvarpinu sem letji lífeyrissjóði til að dreifa áhættu sinni með skynsamlegum hætti.

Hins vegar hjó ég eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann taldi að það mætti alls ekki gera lífeyrissjóðum neinar samfélagslegar skyldur eins og þær að stuðla að hagvexti. Þeir ættu bara að horfa þröngt á það að græða fé og greiða lífeyri, sem er vissulega hlutverk þeirra. En ef þeir hafa engar skyldur (Forseti hringir.) til samfélagsins og skila 3 þús. milljörðum í hagkerfi okkar og sýna enga viðleitni í að auka hagvöxt,(Forseti hringir.) hver heldur hv. þingmaður að verði niðurstaðan af því?