144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

beiðni um þingfund.

[15:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Síðastliðið fimmtudagskvöld, þegar mönnum varð ljós valdníðsla ríkisstjórnarinnar í málefnum Evrópusambandsins, var óskað eftir því hér strax um kvöldið að kallað yrði til þingfundar á föstudaginn. Sú ósk var ítrekuð á fundi þingflokksformanna með forseta á föstudagsmorgni. Ég mótmælti harðlega á þeim fundi þeirri ákvörðun forseta að verða ekki við þeirri ósk. Það er sjálfsagður réttur minni hlutans að óska eftir því, þegar meiri háttar ákvarðanir eru á ferðinni, að strax verði kallað til fundar þannig að menn geti rætt stöðu mála.

Hér er ekkert annað á ferðinni en meiri háttar stjórnskipunarkrísa í landinu, því að þó að það sé jákvætt að formaður utanríkismálanefndar og forseti Alþingis líti svo á að ályktun Alþingis frá 2009 sé enn í gildi þá er það grafalvarlegt að ríkisstjórn Íslands líti svo á að hún geti (Forseti hringir.) einhliða afnumið hana. Það er auðvitað ekkert annað en (Forseti hringir.) meiri háttar stjórnskipunarkrísa.