144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

beiðni um þingfund.

[15:12]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að ræða fundarstjórn forseta, því að eins og komið hefur fram neitaði hann stjórnarandstöðuflokkunum eða formönnum þingflokkanna um fund á föstudag til að ræða þá alvarlegu stöðu sem var uppi, þ.e. að utanríkisráðherra telur að bréf hans út í heim trompi þingsályktanir frá Alþingi. Þetta þurfti auðvitað að skýra tafarlaust. Það gekk ekki að fólk væri sent inn í helgina án þess að Alþingi ræddi þetta og án þess að forseti skyldi gefa það út hver staða Alþingis væri í þessu máli. Við þetta geri ég miklar athugasemdir og þetta eru mikil vonbrigði með störf forseta, sem hingað til hefur staðið sig að mér finnst mjög vel. Ég vænti þess að við getum skorið úr um það á eftir og að forseti okkar allra, þessarar æðstu stofnunar á Íslandi, skeri úr (Forseti hringir.) um það hvert stjórnskipulagið er hér á landi.