144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

þingsályktunartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ályktanir Alþingis um utanríkismál skuldbinda ríkisstjórn og gera það þangað til þær eru numdar úr gildi með annarri ályktun. Fyrir því er löng og athugasemdalaus þingræðisvenja á Íslandi. Þetta er rakið ágætlega í ágætri grein í Kjarnanum í dag, hæstv. forsætisráðherra til upplýsingar.

Það er mjög athyglisvert að heyra að hæstv. forsætisráðherra hafi lagt svo mikið á sig til að synja þingi og þjóð um aðkomu að þessari ákvörðun að hann hefur farið fjallabaksleiðir í samningaþrefi við Evrópusambandið til að semja bréf, fullt af hálfsannleika, sem geri honum kleift að halda því fram að aðildarumsóknin hafi verið dregin til baka þegar hún hefur ekki verið dregin til baka.

Hæstv. forsætisráðherra er orðinn ber að því að misfara með vald sitt. Hann er orðinn ber að því að ganga á svig við það heit sem hann hefur undirritað, drengskaparheit að stjórnarskránni, sem (Forseti hringir.) felur í sér að hæstv. forsætisráðherra þarf að virða þingræðisregluna og á ekki (Forseti hringir.) í samskiptum við önnur ríki að búa til leiðir til að halda ákvörðunum frá Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)