144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

gildi bréfs utanríkisráðherra til ESB.

[15:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Sú umræða sem hér varð á undan sýnir að ýmiss konar skilningur er uppi á því hvað þarf til að nema þingsályktun úr gildi, en það er nokkuð ljóst af orðum hæstv. forsætisráðherra sem talaði hérna á undan að hann lítur svo á að bréf hæstv. utanríkisráðherra til Evrópusambandsins sé afturköllun umsóknar í þeim orðum sem hann mælti hér áðan, þ.e. að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki. Mér hefur þó ekki þótt hv. þingmenn stjórnarflokkanna alveg á eitt sáttir þegar þeir hafa verið beðnir um að skýra sinn skilning á því bréfi í umræðum síðastliðna daga. Hv. formaður utanríkismálanefndar, Birgir Ármannsson, hefur sagt að hann líti ekki svo á að með bréfinu sé verið að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið heldur fyrst og fremst verið að árétta pólitíska afstöðu ríkisstjórnarinnar. Það er í raun og veru í takt við það sem einhverjir fræðimenn hafa líka bent á í því mikla túlkunarstríði sem hefur staðið um bréf utanríkisráðherra þessa helgi.

Hæstv. utanríkisráðherra segist líta svo á að málinu sé lokið og mér finnst ég hafa heyrt hæstv. fjármálaráðherra segja sem svo að hann líti svo á að bréfið jafngildi afturköllun umsóknar. Mig langar að biðja hæstv. fjármálaráðherra að segja okkur þingmönnum hvort með bréfinu hafi sú umsókn verið afturkölluð, enda get ég ekki skilið orð hans um að þetta jafngildi afturköllun öðruvísi, hvort aðildarviðræðunum hafi verið slitið eða hvort fyrst og fremst hafi verið áréttuð sú stefna ríkisstjórnarinnar að hún ætli ekki að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið. Það skiptir máli fyrir það sem við ætlum að ræða á eftir, sem er einmitt staða þingsins og staða þingsályktana sem vissulega hafa gildi langt umfram líftíma þinga. Við getum tekið dæmi, og ákveðin dæmi hafa verið nefnd, til að mynda hvað varðar stefnu íslenskra stjórnvalda fyrr gagnvart Palestínu, í þeirri deilu. Sú stefna er væntanlega enn í gildi, eða hefur hún kannski verið afturkölluð? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi: Lítur hann svo á að umsóknin hafi verið afturkölluð? Í öðru lagi: (Forseti hringir.) Lítur hann ekki svo á að nýja þingsályktun þurfi til?