144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

gildi bréfs utanríkisráðherra til ESB.

[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þegar formaður Vinstri grænna tók þátt í umræðu um þá þingsályktun sem hér er undir, frá árinu 2009, í síðari umr. sagði hann: Ég og við áskiljum okkur rétt til þess að hætta viðræðum við Evrópusambandið hvenær sem er og það ætti þingið líka að gera. Hann lýsti því sem sagt yfir fyrir hönd Vinstri grænna að þeir áskildu sér rétt til þess að hætta viðræðum við Evrópusambandið hvenær sem er, auk þess sem fram kom í skjalinu sjálfu að menn áskildu sér rétt til þess að snúast gegn samningnum sem þeir ætluðu að gera.

Þar fyrir utan koma fram í greinargerðinni og í umræðunum í heild sinni slíkir fyrirvarar á allt þetta mál að maður spyr sig: Hvaða raunverulega bindingu hefur þessi þingsályktun þegar nánar er að gáð? (Gripið fram í.) Hér er það svo (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Svaraðu.) að í þingskjalinu sem er undir er allt bundið við svokallaða málsaðila. Málsaðilar áskilja sér rétt til þess að gera þetta svona, málsaðilar áskilja sér rétt til þess að gera þetta hinsegin. Málsaðilarnir voru þingflokkar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem stóðu að skjalinu. Ég lít þannig á að viðkomandi þingsályktun sé ekki bindandi fyrir Alþingi og þá ríkisstjórn sem nú situr.

Hér er spurt hvort umsóknin hafi verið afturkölluð. Hvað er þar í raun og veru í kjarnann verið að spyrja um? Annars vegar tel ég að þar sé verið að spyrja: Þurfum við Íslendingar að leggja fram nýja umsókn í framtíðinni hyggist menn sækja um aðild að Evrópusambandinu? Mér heyrist að það sé svona nokkuð þverpólitísk samstaða um að menn ættu ekki að hefja þennan leiðangur að nýju án þess að leita fyrst til þjóðarinnar. Það getur varla verið að nokkrum detti í hug að byggja framhaldsviðræður við Evrópusambandið, mögulega einhvern tímann í framtíðinni, á því sem gerðist hér í kjölfar (Forseti hringir.) þingsályktunarinnar frá 2009 vegna þess að það gerðist ekkert í fjögur ár. Það gerðist nákvæmlega ekki neitt. Lög innan lands og í Evrópusambandinu eru sífellt að breytast. Það er í sjálfu sér tómt mál að tala um að byggja framhaldsviðræður á því skjali.