144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB.

[15:47]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um að mér líður ljómandi vel. Hv. þingmaður las upp tilvitnun í sjónvarpsþátt og ég gengst við þessum orðum. Mig langar samt aðeins að rifja upp það sem hv. þingmaður las ekki upp. Ég var spurð hver stefna míns flokks væri varðandi Evrópumálin og þá fór ég rækilega yfir það að viðræðum skyldi hætt og þeim ekki fram haldið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan er í samtali gengið á þetta og spurt „hvað ef“. Spurningarnar héldu áfram og þá sagði ég þetta sem þingmaðurinn vitnaði í. Í sama þætti var hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hann var spurður af hverju þjóðin hefði ekki verið spurð þegar umsóknin fór af stað. Hann svaraði því til í þessum sama þætti: Við þurftum þess ekki, við höfðum þingmeirihluta.

Svona voru umræðurnar í þessum þætti og það er kannski svolítið undarlegt að við séum að ræða þetta núna með þessum öfugu formerkjum en þá var það hv. þingmaður sem beitti fyrir sér þingmeirihlutanum og sú sem hér stendur talaði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Munurinn á mér og hv. þingmanni sem var með mér í þessum þætti er að ég greiddi margsinnis atkvæði með þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta kjörtímabili og, já, ég treysti þjóðinni ljómandi vel til að taka ákvarðanir sem hana snerta. Í þessu tilfelli styð ég stefnu hæstv. ríkisstjórnar sem hefur algjörlega legið fyrir frá upphafi, frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum. Frá því að hún gerði með sér samstarfssamning er þetta algjörlega skýrt sem og þær ályktanir sem báðir flokkarnir sem að þessari ríkisstjórn standa hafa sett fram á sínum landsfundum.