144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB.

[15:49]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi svör verða bara vandræðalegri og vandræðalegri. Hér kemur í ljós í máli hæstv. ráðherra að gert var samkomulag til hliðar við stjórnarsáttmálann um að þetta mál færi aldrei í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér er verið að staðfesta það.

Það er með ólíkindum hvernig menn tala hér allir þvers og kruss, það er bara gripið í næstu rök til að réttlæta þessa vondu ákvörðun. Þegar hæstv. ráðherra þylur hér upp eftir minni það sem fram fór í þessum þætti vil ég benda henni á að það sem ég las upp voru tilvitnuð orð. Ég held að hæstv. ráðherra ætti aðeins að skoða hvað hún hefur sagt og treysta minna á sitt eigið minni.

„… þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“

Þessi orð standa á bls. 5 í kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins sem var gefinn út í aðdraganda síðustu kosninga. (Gripið fram í.) Hér stendur ekkert um (Forseti hringir.) að það sé eingöngu ef halda skyldi áfram með málið. Það er staðfest hér að orð þessa fólks eru ómarktæk og kosningabæklingar og útgefið efni í aðdraganda kosninga af hálfu Sjálfstæðisflokksins sömuleiðis.