144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að vera með skýrslu til okkar í dag um stöðu Alþingis þótt ég taki undir þau orð annarra úr meiri hlutanum að þessi umræða hefði átt að fara fram fyrir helgi.

Ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs í umræðu um fundarstjórn forseta er sú að þegar þessi dagskrárliður, Staða Alþingis, var tilkynntur úr forsetastóli sá undir iljarnar á hæstv. forsætisráðherra. Nokkrir ráðherranna, þó ekki allir, flýttu sér út úr salnum eftir að hafa fótumtroðið Alþingi, verandi þingmenn sjálfir. Ég ætla að brýna þingmenn í baráttunni fyrir því að þingræðið verði ekki fótumtroðið og láta auma (Forseti hringir.) útgöngu hæstv. forsætisráðherra vera sér leiðarljós í þeirri varðstöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)