144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta voru stór orð hjá hæstv. fjármálaráðherra: Meiri hlutinn ræður. Hér erum við, það er svo eðlilegt, við ráðum og þurfum ekki að spyrja þingið að einu eða neinu.

Því miður er þetta grafalvarleg atlaga að þingræði, og að heyra svona orð falla hérna er nú ekki til þess fallið að minnka þær áhyggjur sem almenningur í landinu hefur af þingræðinu, burt séð frá innihaldi málsins sem er allt önnur ella.

Þetta er atlaga að þinginu og það er með ólíkindum að sjá ráðherra hlaupa undan orðum sínum sem þeir hafa haft um að þjóðin eigi að hafa aðkomu að þessu stóra og mikla máli og að það eigi fara í gegnum þingið. Manni dettur í hug setningin: „Bara ef það hentar mér“, eins og sagt var í einhverjum dægurlagatexta, þó að maður eigi ekki að blanda því saman við þessa umræðu. En þannig er það því miður hjá þessari viðvaningslegu ríkisstjórn — ég segi viðvaningslegu ríkisstjórn, hæstv. fjármálaráðherra, því að svona vinnubrögð bera ekki vott um að menn þekki stjórnskipan landsins (Forseti hringir.) eða þingsköp eða það að vinna þingræðislega.