144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hér í þingsal fer náttúrlega fram grafalvarleg umræða um stöðu lýðræðisins og grundvöll lýðræðisins. Hér er að myndast röksemdafærsla sem m.a. hæstv. fjármálaráðherra heldur á lofti. Hann segir: Ríkisstjórnin styðst við meiri hluta, þess vegna þarf ekki að greiða atkvæði. Það liggur í orðunum. Þess vegna má ríkisstjórnin taka alls konar ákvarðanir, þar á meðal þá að slíta viðræðunum við Evrópusambandið. Ég lít svo á að sú ákvörðun hafi ekki verið tekin vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekkert leyfi til þess. Hæstv. ráðherra virðist líta svo á og hæstv. utanríkisráðherra að ríkisstjórnin hafi leyfi til að taka svona risastóra ákvörðun vegna þess að hún styðst við meiri hluta. Þetta er grafalvarleg röksemdafærsla. Það er bara ein leið til að staðfesta meiri hluta — og við verðum að halda tryggð við formin í því — og það er í atkvæðagreiðslu. Raunverulega er þetta mál það stórt að mjög margir og þar á meðal (Forseti hringir.) leiðtogar í þessari ríkisstjórn vildu að þjóðin tæki ákvörðun um það. Hvernig gat (Forseti hringir.) ríkisstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að hún gæti bara tekið slíka ákvörðun í þessu máli? (Forseti hringir.) Það er ótrúlegt.