144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það læðist nefnilega að manni sá grunur í þessu máli að ríkisstjórnin hafi ekki meiri hluta. Hún sé búin að gera einhverja hausatalningu á liðsstyrk sínum í salnum og hafi komist að þeirri niðurstöðu að hún komist ekki í gegn með það enda mátti lesa það úr orðum hæstv. utanríkisráðherra á laugardaginn þegar hann sagði: Mér sýnist að þingið hafi engan áhuga á því að afgreiða þetta mál. Það er auðvitað mjög harmrænt fyrir ríkisstjórnina að vera komin í þá stöðu að hafa ekki meiri hluta til þess að ljúka málinu hérna. Hún fór með það fyrir ári síðan inn í utanríkismálanefnd og kom því þaðan ekki út aftur, það dagaði uppi.

Hæstv. forsætisráðherra var spurður að því hér á dögunum hvaða mál hann gæti nefnt önnur en skuldaleiðréttinguna sinni ríkisstjórn til framdráttar. Hann gat ekki nefnt eitt, ekki neitt einasta. Auðvitað vissu menn í hvað stefndi þegar menn lögðu fram þetta bréf og hvers konar málatilbúnaður yrði í þinginu og hvers lags uppnám yrði í þjóðfélaginu. Auðvitað er þetta bara hugsað til þess að dulbúa getuleysi ríkisstjórnarinnar sem er að verða algert. Og þegar ríkisstjórn er komin í þá stöðu að geta ekki farið með mál í gegnum þing og hefur ekki (Forseti hringir.) umboð, hefur ekki stuðning til þess að ljúka svona málum, þá á hún auðvitað að sækja sér umboð í kosningu. Það á að slíta þessari ríkisstjórn (Forseti hringir.) og boða til kosninga. Það er það eina rétta sem hægt er að gera í þessari stöðu.