144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Bara svo það komi alveg skýrt fram þá var ákveðinn hálfsannleikur í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hann vitnar réttilega í lögfræðilega samantekt skrifstofu Alþingis um gildi þingsályktana þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þegar allt kemur til alls er það þingið sjálft sem ákveður hvort það fellur frá eða breytir ályktun sinni. Jafnframt er það í valdi þess að leggja mat á hvort ríkisstjórn eða ráðherra hafi fylgt eftir ályktun þess og eftir atvikum að bregðast við með þeim hætti sem það eða meiri hluti þess telur réttan.“

Það kemur nefnilega fram alveg í lokin á samantektinni, eins og ég nefndi áður, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður að gera ráð fyrir því að Alþingi sé upplýst um slíkar breytingar og um leið leitað afstöðu þingsins eða meiri hluta þess til breytinga á málsmeðferðinni.“

Sú þingsályktunartillaga sem var farið af stað með fól í sér að það skyldi farið í samningaviðræður og að þeim loknum yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöðuna. Það er verið að breyta málsmeðferðinni og þá þarf, (Forseti hringir.) a.m.k. samkvæmt skrifstofu Alþingis, að gera það með því að leita samþykkis meiri hlutans á þingi og það er líka tekið fram að það skuli gert (Forseti hringir.) með þingsályktun. Þetta er niðurstaðan. Það er ekki gert vegna þess (Forseti hringir.) að menn treysta sér ekki til þess, treysta sér ekki til þess að ná tillögunni í gegnum þingið. Menn eru að fórna þingræðisvenju (Forseti hringir.) um þingsályktunartillögur (Forseti hringir.) til þess að ná þessu fram.