144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[16:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þingræði á Íslandi var innleitt árið 1904 eins og flestum er kunnugt. Samkvæmt venjulegri skýringu felst það í þingræði að þeir menn einir geta verið ráðherrar sem þjóðþingið eða meiri hluti þess vill styðja eða þola í embætti eins og Ólafur Jóhannesson, lagaprófessor og fyrrum forsætisráðherra, orðaði það í riti sínu um íslenska stjórnskipun. Merkingin leggur áherslu á vald þingsins sem þjóðkjörinnar fulltrúasamkundu og ekki hefur verið um hana efast hér á landi svo að heitið geti undanfarin 111 ár. Sjálfstæði þingsins og ákvarðanir í löggjafar- og stefnumótunarmálum til framkvæmdarvaldsins er alveg skýrt. Þingið hefur völdin og getur aldrei og má aldrei verða afgreiðslustofnun fyrir hugdettur hæstvirtra ráðherra. Það er því háalvarlegt mál þegar einstakir ráðherrar nota undanbrögð og þokukenndar yfirlýsingar til að fara á bak við Alþingi Íslendinga eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur gert eða reynt að gera með þessari furðulegu aðgerð sem við höfum nú orðið vitni að. Og ég veit ekki, forseti, hvað á að kalla þetta. Eru þetta einræðistilburðir eða bara hrein einfeldni?

Þingsályktanir eru leiðin sem þingið fer til að álykta um utanríkismál. Það þarf nýja þingsályktun til að breyta þeirri sem í gildi er. Þegar hæstv. utanríkisráðherra tilkynnir formlega, með bréfi til alþjóðlegrar stofnunar, afstöðu Íslands er litið svo á að hann hafi umboð til að gefa slíkar yfirlýsingar. Hæstv. utanríkisráðherra situr í ríkisstjórn sem starfar í umboði Alþingis. Ríkisstjórnin hefur samráðsskyldu við utanríkismálanefnd Alþingis samkvæmt þingskapalögum þegar um er að ræða meiri háttar utanríkismál. Þeir sem tóku við bréfi hæstv. utanríkisráðherra hafa gert ráð fyrir því að ráðherrann sé ekki að senda bréf um svona stórt mál án þess að fara að íslenskum lögum um meðferð þess. Að tilkynna um það til Evrópusambandsins að Ísland ætli ekki að vera lengur á lista yfir umsóknarþjóðir er meiri háttar utanríkismál.

Framkvæmdarvaldið starfar í umboði Alþingis á hverjum tíma með meiri hluta þingsins á bak við sig. Þegar talað er um að tryggja samráðsskyldu við þingið þá er verið að tala um allt þingið en ekki bara stjórnarflokkana. Þessi hæstv. ríkisstjórn sniðgengur allt samráð við minni hluta og það er fullkomlega óeðlilegt og óásættanlegt. Framkoman gefur þá mynd af þinginu að það sé ekki þess vert að hafa við það samráð í stórum stefnumarkandi málum. Ríkisstjórnin telur nóg að funda stuttlega með stjórnarþingmönnum rétt áður en látið er til skarar skríða. Síðan fréttum við hin þetta bara í útvarpinu.

Er ekki hægt, virðulegur forseti, að ætlast til þess að hæstv. ráðherrar viti í hvers umboði þeir starfa og hvað það felur í sér?