144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[16:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir það frumkvæði forseta þingsins að fella deilur um stöðu þingsins í þennan farveg. Ég tel að það hafi verið vel heppnað að fá sérstaka umræðu á þennan hátt og þakka honum fyrir hans orð hér og skýringar á stöðunni.

Eins og allir vita á þetta mál, umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, rætur sínar að rekja til ársins 2009. Það er ekki hægt að ræða um stöðu þessarar þingsályktunar eða málið í heild án þess að rifja það upp hvernig til málsins var stofnað í upphafi. Það var til dæmis þannig hér í þingsal að fjölmargir þingmenn sem greiddu atkvæði með því að farið yrði í þennan leiðangur lýstu fyrirvörum sínum í bak og fyrir. Hv. formaður Vinstri grænna á þeim tíma, Steingrímur J. Sigfússon, sagði hér undir umræðunni, með leyfi forseta:

„Við áskiljum okkur líka rétt til þess á hverju stigi málsins sem er að leggja það til að samningaviðræðum verði hætt og það á Alþingi líka að gera.“

Sem sagt, annar flokkurinn sem stóð að þingsályktunartillögunni áskildi sér rétt til að hætta við allt saman (Gripið fram í: Leggja það til.) og [Frammíköll í þingsal.] — að leggja það til, já, ég hafði þetta orðrétt yfir hér. (Gripið fram í.) Ég veit að þetta fer í taugarnar á formanni þingflokks Vinstri grænna, hann verður að halda aftur af sér á meðan ég hef orðið. (Gripið fram í.) Ég ætla að leyfa ykkur að klára bara, forseti, ég ætla að leyfa (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunni að klára þetta hérna.

(Forseti (KLM): Forseti vill biðja þingmenn um hljóð í þingsal og gefa þeim sem hefur orðið færi á að flytja sitt mál hér eins og við ætlumst til að allir fái að gera.)

Það er eflaust óskaplega erfitt að sitja undir þessu, en þetta er grundvallaratriði, hvernig stofnað var til málsins í upphafi. Það skiptir verulegu máli.

Þessir sömu flokkar tóku síðan ákvörðun í janúar 2013, eftir mikla þrautagöngu út af þessu sama máli, þar sem öllum Íslendingum var ljóst að ekki er hægt að eiga í efnislegum viðræðum við Evrópusambandið ef hugur fylgir ekki máli. Hafi menn ekki traustan þingmeirihluta að baki sér, hafi menn ekki ráðherra í ráðherrastólum sem ætla að vinna að framgangi málsins, þá er þetta fyrir fram dauðadæmt. Það er það sem við eigum að læra af síðasta kjörtímabili. Allur vandræðagangurinn, þau miklu átök sem urðu — ég ætla ekki að rekja það, ég hef gert það áður, menn þekkja þetta — er til vitnis um að svona á ekki að standa að málinu.

Nú höfum við ríkisstjórn (Gripið fram í.) þar sem enginn ráðherra styður aðild að Evrópusambandinu. Við höfum flokka í ríkisstjórn og með meiri hluta hér á þingi sem hvorugur stefnir að inngöngu í Evrópusambandið. Samt láta þeir sem stóðu að málinu á síðasta kjörtímabili eins og það sé bara sjálfsagt og eðlilegt að krefjast þess af ríkisstjórninni sem nú situr að hún vinni að inngöngu í Evrópusambandið fyrir Ísland, að menn lagi bara regluverkið á Íslandi að regluverki Evrópusambandsins og fari svo með málið áfram. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegur málflutningur. Ég veit að menn eru að tala gegn betri vitund. (Gripið fram í: Ekki loforð.) Menn eru að tala gegn betri vitund. (Gripið fram í: Ekki svíkja.)

Hv. þingmenn kalla hér frammí að það eigi ekki að svíkja. Það sem helst hefur verið að í öllu þessu ferli er samtalið við þjóðina um að það sé bara sjálfsagt og eðlilegt að kíkja í pakkann, að leiða eitthvað fram. Mætti ég biðja þá þingmenn hér sem gætu upplýst þá sem eru að hlusta um eitt einasta atriði sem samið var um í viðræðunum við Evrópusambandið, bara eitt sem samið var um, bara eitt. Menn fengu til þess heilt kjörtímabil, lengri tíma en nokkurt annað ríki sem hefur gengið inn í Evrópusambandið. Náðu menn að semja um eitt atriði? Náðu menn að taka á og leiða fram í dagsljósið fyrir íslenskan almenning eitthvað af þeim umdeildu málum sem mikið var rætt um í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar? Var hægt að skýra stöðuna varðandi sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins? Nei, það var ekki hægt. Það eina sem gerðist allt síðasta kjörtímabil var að það var staðfest að við værum aðilar að EES-samningnum og hefðum innleitt þá kafla sem snerta innri markaðinn á réttan hátt. Það var stimplað af Evrópusambandinu. Við lokuðum köflunum sem við vorum þegar búin að innleiða í íslenskan rétt.

Þetta er eitt af grundvallaratriðunum sem er rétt að halda til haga þegar við ræðum um Ísland og Evrópusambandið og möguleikana á því að halda hér áfram.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er líka mjög hugsi yfir því hvernig menn tala hér sem stóðu að málinu síðast, eins og til dæmis þingmenn Vinstri grænna. Vilja þeir virkilega að haldið verði áfram á sömu forsendum? Og hvernig ætla þeir, eftir þá reynslu sem þeir hafa haft af síðasta kjörtímabili, að framfylgja á sama tíma þeirri hugmyndafræði að leiða fram samning, sem gekk ekki upp í heil fjögur ár, og sinni eigin stefnu um að halda Íslandi utan Evrópusambandsins? Hvernig ætla menn að gera það?

Hér hefur talsvert verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslu og vísað í mín orð. Ég hef aldrei í eitt skipti fyrir öll útilokað allar þjóðaratkvæðagreiðslur um þetta mál. Það eina sem ég hef bent á er að það er algerlega óraunhæft að ætlast til þess að ríkisstjórn sem hyggur ekki á inngöngu í Evrópusambandið taki að sér að leiða slíkar aðlögunarviðræður. Það er ekki raunhæft.

Mér heyrist reyndar, þegar menn stíga úr þessum ræðustól, að flestir skilji þetta; þegar menn ræða það fyrir utan þingsalinn virðast nú flestir þingmenn skilja það. (Gripið fram í.) Það er í því samhengi sem þetta mál verður að ræðast. Og það er í samhengi við alla þá fjölmörgu fyrirvara sem menn samþykktu í fyrrverandi þingsályktun sem þetta mál þarf að ræðast.

Á morgun mun utanríkisráðherra fara yfir skýrslu sína um þetta mál. Þetta mál er í fullkomlega eðlilegum farvegi í fullkomnu samræmi við niðurstöðu síðustu kosninga, stefnu stjórnarflokkanna, stjórnarsáttmálann og þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar frá því ríkisstjórnin var mynduð.