144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það má leiða að því líkur að ef viðræðunum hefði verið haldið áfram af fullum krafti og ekki gert á þeim hlé værum við líklega með aðildarsamning núna, við værum með samning í höndunum sem mundi svara mjög stórum spurningum. Að mínu mati værum við mjög líklega með samning í höndunum sem fæli í sér einhvers konar sérlausn í sjávarútvegi og mjög viðunandi samninga í landbúnaðarmálum. Ég held að við stæðum uppi með samning sem við gætum vel samþykkt. En stóra spurningin í þessu samhengi er: Af hverju er þetta svona erfitt? Af hverju getum við ekki gefið þjóðinni það að hún fái einhvern tímann tækifæri til að taka upplýsta afstöðu á grunni samnings til þessa risastóra deilumáls sem við erum búin að deila um hér í áratugi? Af hverju er þetta svona erfitt? Af hverju getum við ekki gert þetta eins og aðrar þjóðir?

Við í Bjartri framtíð höfum sagt að við höfum alveg skilning á því að þessi ríkisstjórn vilji ekki fara í Evrópusambandið og að hún hafi gert hlé á viðræðunum. Hún segir í stjórnarsáttmála sínum að hún ætli að gera það en flokkarnir sem standa að þessari ríkisstjórn gáfu það líka alveg skýrt út fyrir síðustu kosningar að þjóðin fengi alltaf að ráða hvort haldið yrði áfram með þessar viðræður. Við höfum lagt áherslu á að þá sé eftir því farið.

Það er reginmunur á því að gera á viðræðunum hlé út af þessum veruleika í pólitíkinni og að slíta þeim alfarið. Þar á er reginmunur. Talsmenn ríkisstjórnarflokkanna geta ekki haldið því fram að það sé minni háttar ákvörðun, að það sé bara einhver orðinn veruleiki. Spurningin sem blasir við er einfaldlega þessi: Ef ný ríkisstjórn tekur við völdum á Íslandi, getur hún þá ekki haldið áfram með viðræðurnar? Jú, það er staðfest í dag. Hæstv. forseti hefur algjörlega skorið úr um að viðræðunum verður ekki slitið nema með sjálfstæðri ákvörðun í þinginu. Ég fagna þeirri yfirlýsingu, hún er mjög mikilvæg og mér finnst hún hafa blasað við alveg frá upphafi þessarar atrennu. Auðvitað getur ríkisstjórnin ekki tekið svona ákvörðun án þess að leita samþykkis þingsins — og þjóðarinnar, vil ég meina. Það þarf sjálfstæða ákvörðun til að slíta viðræðunum.

Eftir stendur þá dálítið átakanlegur veruleiki. Hvað hafa leiðtogar ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherrar, verið að spá undanfarna daga? Af orðum þeirra undanfarna daga hefur mátt ráða að þeir hafa talið að þetta bréf sem var sent til útlanda hafi verið ígildi sjálfstæðrar ákvörðunar um að slíta viðræðunum. Þeir hafa sagt það. Nú þurfa þessir ráðherrar einfaldlega að fara heim til sín aðeins, hugsa málið og reyna að útskýra fyrir sjálfum sér hvað þeir meintu með þessu. Tíðindi dagsins eru algjörlega þessi: Það er alveg kristaltært, og auðvitað er það kristaltært, að það er einungis Alþingi, og það er helst þjóðin miðað við þau loforð sem voru gefin, sem getur tekið ákvörðun um að slíta viðræðunum.

Ég er þeirrar skoðunar að viðræðurnar hafi gengið vel. Ég er þeirrar skoðunar að mörgum álitamálum hafi verið svarað í viðræðunum, hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson. Til dæmis héldu margir því fram að ungir Íslendingar þyrftu að ganga í evrópskan her ef við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu. Því var algjörlega svarað skýrt og þeim málflutningi eytt þegar kaflanum um öryggismál var lokað. Þá var alls konar áróður um að útlendingar mundu eignast í gegnum mögulegan samning um aðild að Evrópusambandinu allar auðlindir Íslendinga. Því var kirfilega svarað í gegnum aðildarviðræðurnar. Þetta var náttúrlega það óþægilega í aðildarviðræðunum fyrir þá sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið, (Gripið fram í: … samning?) spurningum var svarað og verulegum árangri náð. Þess vegna tilheyri ég — (Gripið fram í: Þessi svör …) ég tilheyri þeim hluta Íslendinga sem vill halda áfram með viðræðurnar á þeim grunni sem byggt hefur verið á.

Stærstu tíðindi dagsins eru að viðræðunum hefur ekki verið slitið og það er gott. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)