144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það gerðist í þessari umræðu um yfirlýsingu forseta að forseti kom með alveg skýra línu í þessu máli sem sýnir hvers lags sneypuför og erindisleysa var á ferðinni hjá hæstv. ríkisstjórn. Fyrir einu ári gerði Sjálfstæðisflokkurinn tilraun til þess, og ríkisstjórnin öll, að ljúka þessu máli með þingsályktunartillögu. Hún var tekin til umræðu í þinginu, mönnum þótti hún tiltölulega fljótt komin fram eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands var kynnt til sögunnar, en gott og vel, og hún fór til nefndar. Þaðan var hún ekki afgreidd.

Í því fólst ákveðinn andlitsmissir fyrir ríkisstjórnarflokkana, að ná ekki þrátt fyrir mikinn þingstyrk að ljúka þessu máli. Það sem blasir nú við er að gera átti tilraun til að ljúka málinu án þess að fara með það í gegnum þingið með tiltölulega einfaldari hætti en gert var fyrir ári. Samt sem áður hefur ekkert gerst í millitíðinni sem réttlætir þessa breyttu málsmeðferð. Rök hæstv. utanríkisráðherra hafa verið þau að frá því að tillagan var lögð fram hér síðast hafi komið í ljós að Evrópusambandið hafi breytt um áherslur í stækkunarferli sínu, að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafi verið lögð fram — það er reyndar rangt hjá hæstv. ráðherra, hún var lögð fram áður en hann lagði fram þingsályktunartillögu sína fyrir ári — og þar að auki sjái hann ekki að þingið sé nokkuð á leiðinni að fara að samþykkja svona tillögu.

Hér átti augljóslega að reyna að ljúka málinu, endurheimta andlitið eftir sneypuför síðasta árs, en það hefur heldur betur mistekist. Yfirlýsing forseta þingsins tekur af allan vafa um það. Yfirlýsing forseta þingsins leiðir líka í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn á sér bara einn foringja — og hann heitir ekki Bjarni Benediktsson. Hann heitir Einar K. Guðfinnsson og lýsti hér leiðina sem fara þarf í þessu máli. Það þarf að flytja aðra tillögu til að slíta þessu ferli, til að Ísland hætti að vera umsóknarríki. Því er stóra spurningin sem blasir við eftir þessa sneypuför alla: Verður slík tillaga lögð fram í þinginu? Mun ríkisstjórnin reyna með formlegum hætti að slíta þessu ferli? Það er stóra spurningin sem blasir við og verður fróðlegt að (Forseti hringir.) fylgjast með framhaldinu.