144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er greinilegt að ríkisstjórnin skilur ekki þingræðið. Það er gott að forseti Alþingis útskýrir að leggja þurfi fram nýja tillögu til að breyta málsmeðferðinni í þessum viðræðuslitum ef það er vilji ríkisstjórnarinnar.

Því vil ég og fer fram á að forseti Alþingis, með formlegum hætti, í umboði okkar þingmanna allra, sendi bréf sem ógildir umrætt uppsagnarbréf ríkisstjórnarinnar. Það er hið eina eðlilega í þessari stöðu, því að ríkisstjórnin heldur því fram fullum fetum, eins og kom fram hér í dag, að hún sé búin að segja upp þessu ferli. Það var tilgangur og markmið ríkisstjórnarinnar að fara fram hjá Alþingi, að fara fram hjá sínum eigin flokksmönnum, að fara fram hjá þjóðinni, til þess að ná fram einhvers konar — ég skil eiginlega ekki hvað þeir voru að gera, mér er alveg fyrirmunað að skilja þetta. Allt þetta ferli er þannig að ég skil ekki bofs í því. En ég óska þess að forseti ógildi þetta.

Við skulum muna það, forseti, og allir sem hér eru inni — því miður eru fáir þingmenn meiri hlutans hér — en það er þannig að þau, þessi 53.555, eru þjóðin. Þau kölluðu eftir því að á þau yrði hlustað. Því skora ég á forseta, út af því að þau kölluðu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, að ef ekki er hægt að kalla uppsagnarbréfið til baka leggi forseti fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem við fáum úr því skorið hvort fólk vilji halda áfram með viðræðurnar eða ekki. Það er hið eina eðlilega ferli.

Við í minni hlutanum höfum ákveðið að aðstoða þingið og höfum öll sem eitt unnið saman að þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu, en því miður þora forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins þessu ekki. Þið sem eruð í meiri hlutanum lofuðuð þjóðinni, þið lofuðuð því ítrekað og það er allt til á upptökum — ég sé að einn stjórnarþingmaður hér hristir höfuðið. Því var lofað að þjóðin fengi að kjósa um þetta, en ákveðið að ganga á bak þeim orðum þegar ríkisstjórnarsamkomulagið var sett á. Það er skammarlegt. Það er ekki í lagi að svíkja loforð bara vegna þess að maður er kominn til valda. Það voru báðir stjórnarflokkarnir sem lofuðu og báðir sviku þeir. Það er ljóður á þessu starfi að það sé álitið að það sé í lagi.

Ég vil líka benda á að margir líta svo á að það sé ekkert stórkostlega slæmt að kippa þingræði og lýðræði úr sambandi. Margir hafa glott og brosað þegar maður bendir á það í þingsal í dag. En það er nú bara þannig að ef við ætlum að búa við þingræði sem gengur eingöngu út á það að meiri hlutinn ráði þá er kannski langbest fyrir okkur sem erum í minni hlutanum að fara heim. Forsætisráðherra eða fjármálaráðherra gætu líka tekið af öll tvímæli um það í umboði hverra þeir eru hér — jú, þeir eru í umboði þjóðarinnar — og boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Það væri langheiðarlegast og best í þessu máli.