144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er mikið talað um Evrópusambandið og umsóknina, enda er þessi vettvangur til þess og þess vegna eigum við eigum að ræða slíkar tillögur hér. Hér ræðum við hins vegar um stöðu Alþingis og þá sérstaklega í ljósi 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, en hún er sú að Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Ein af þeim verri ræðum sem ég hef heyrt flutta hér úr þessari pontu var haldin fyrr í dag af hv. 3. þm. Norðaust., Höskuldi Þórhallssyni, en ræða hans ítrekar og endurspeglar sérstaklega það viðhorf sem er til staðar hjá ríkisstjórninni, viðhorf sem mér hefur alltaf þótt svolítið undarlegt. Það er þegar menn bæði réttlæta og afneita. Þeir neita því að þeir séu að gera eitthvað sem þeir réttlæta síðan í næstu andrá að þeir séu að gera.

Þetta minnir mig á viðtal sem ég sá þar sem ungur maður var að rífast mjög hatrammlega við annan mann í sjónvarpinu og orðið „lygari“ kom fram. Sá eldri var ekki hress með það orð en þá sagði sá yngri: „Nei, ég er ekki að kalla þig lygara. Þú ert lygari.“

Mér finnst þetta svolítið sambærilegt. Það er sagt nei, hér er ekki verið að draga til baka, ekki verið að breyta neinu, en við höfum samt réttinn til þess að gera það og megum það bara ef okkur sýnist. Sömuleiðis orð hv. 3. þm. Norðaust., sérstaklega þegar hann sagði að ríkisstjórn yrði að hafa einhver ráð til að koma sínum málum í gegnum Alþingi, vitandi að það kæmist aldrei í gegnum Alþingi.

Virðulegi forseti. Til hvers er 1. gr. stjórnarskrárinnar? Það er Alþingi sem ræður hérna og það er hluti af verksviði Alþingis að sigta út þvæluna sem kemur stundum frá hæstv. ríkisstjórn. Það er hluti af því sem við gerum. Og ef menn vilja breyta ferlinu, sem ég ítreka að ég er meira en reiðubúinn til að taka þátt í að gera, þá eigum við að breyta ferlinu. Við hunsum ekki ferlið vegna þess að við erum óánægð með hvernig það virkar. (Gripið fram í.) Það er ekki í boði í lýðræðissamfélagi.

Þegar við tölum um lýðræðislegt umboð þá lofuðu stjórnarflokkarnir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið fyrir kosningar. Þeir voru kosnir að miklu leyti út á þau loforð. Þeir voru spurðir sérstaklega, þetta kom skýrt fram.

Þeir hafna því að þjóðina ákveði þetta. Þeir þora ekki í þjóðina. Þeir hunsa 53.555 undirskriftir, sem er meira að nefna það að safna. Þeir hunsa mótmælin í fyrra, sem eru núna byrjuð aftur út af sama máli, sem snýst ekkert endilega um Evrópusambandið, athugið, heldur um sniðgöngu á lýðræðinu, um það snýst þetta. Og alþingismenn mega aldrei nokkurn tíma leyfa það.