144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[18:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Þetta er umræða um stöðu Alþingis en af ákveðnu tilefni. Umræða um stöðu Alþingis hlýtur að vera sífelld og fara eilíflega fram og hún mun auðvitað halda áfram í einhverri mynd. Það er vel. Ég held að það geti verið skynsamlegt endrum og sinnum að við efnum til umræðu um stöðu þingsins á þingfundum, stundum að gefnu tilefni og síðan bara almennt vegna þess að auðvitað fer vel á því að þingmenn ræði stöðu þjóðþingsins í sal Alþingis.

Ég vil aðeins í lokin leggja áherslu á fáein atriði. Fyrst og fremst vísa ég í þá ræðu sem ég flutti áðan án þess að ég ætli að fara að endurtaka hana að neinu gagni. Í fyrsta lagi varpaði ég fram spurningu sem hefur verið umrædd upp á síðkastið, um það hvort með bréfi hæstv. utanríkisráðherra hafi á einhvern lögformlegan hátt verið gengið á rétt Alþingis og alþingismanna. Var með öðrum orðum vegið að stöðu þingsins? Ég árétta það sem ég sagði mjög skýrt í ræðu minni, svar mitt við þeirri spurningu er að svo hafi ekki verið. Ég rökstuddi það með fáeinum orðum sem ég get vísað til. Í fyrsta lagi hafa þingsályktanir ekki lagagildi eins og fram hefur komið. Það er ekki bara mat fræðimanna að svo sé, það er grundvallaratriði að þingsályktun hafi ekki lagalega bindandi gildi, vegna þess einfaldlega að ef svo væri gæti það ekki samrýmst sjálfu valdgreiningarákvæðinu, 3. gr. stjórnarskrárinnar, um löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Ef við léðum þessum þingsályktunum lagagildi væri í raun vikið frá því skipulagi sem við höfum búið til á Alþingi, að Alþingi lýsi annars vegar vilja sínum með ályktun og setji hins vegar lög um mikilvæg málefni.

Þó að þingsályktanir séu mjög mikilvægar, og enginn efast um það, geta þær ekki bundið stjórnvald umfram það sem leiðir af sjálfri þingræðisvenjunni. Þær geta haft pólitískt gildi, þær geta haft annars konar gildi, en það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á þessu.

Það sem ég vakti líka athygli á er að hér hefur verið vitnað til bréfs hæstv. utanríkisráðherra þar sem annars vegar er vikið að því að áréttuð eru þau áform ríkisstjórnarinnar að hefja ekki aðildarviðræður að nýju og sömuleiðis sé það bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB. Þegar ég svara spurningunni um það hvort með þessu bréfi hafi á einhvern hátt verið gengið á rétt þingsins eða alþingismanna eða vegið að stöðu Alþingis — og ég svara því að svo sé ekki — er ég að vísa til þess að ég telji að hæstv. ráðherra hafi fullar heimildir til að lýsa þessu yfir sem hann er að gera, í þessu tilfelli í bréfi sem hér hefur verið mjög til umfjöllunar.

Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja neitt frekar um þessa umræðu. Ég fagna henni og af því að hér hefur verið mjög vikið að upplýsingaskyldu framkvæmdarvaldsins gagnvart þinginu vil ég vekja athygli á tvennu. Annars vegar eru í gildi skýr lög um það með hvaða hætti skuli fara með slík mál. Gert er ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra leggi fyrir Alþingi skýrslu þar sem farið er yfir framkvæmd þingsályktana, og þeirri reglu hefur verið fylgt alveg frá upphafi, frá því að lögin um þetta voru sett árið 2011. Markmiðið var að styrkja stöðu þingsins og tryggja betur framkvæmd ályktana þess. Að öðru leyti vil ég líka segja að með því að hæstv. utanríkisráðherra flytji skýrslu um þessi mál á morgun og geri okkur betur grein fyrir efnislegri merkingu þess bréfs sem hann ritaði í síðustu viku tel ég sömuleiðis að fullnægt sé því ákvæði sem kveðið var á um og vísað til í þeirri samantekt sem unnin var af hálfu skrifstofu þingsins um upplýsingagjöf framkvæmdarvaldsins til þingsins.