144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

afgreiðsla atvinnuveganefndar á rammaáætlun.

[13:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst það alvarlegt þegar hv. þingmenn lýsa hér yfir áhyggjum sínum af því að meiri hluti atvinnuveganefndar fylgi ekki lögum. Fyrir því hafa verið færð rök því að það liggur fyrir að verkefnisstjórn hefur aldrei lokið umfjöllun um Hagavatnsvirkjun. Það er alveg sama hvað hv. formaður atvinnuveganefndar kallar mikið fram í hér, hann getur ekki breytt þeirri staðreynd. Það hlýtur að vera eðlileg krafa þingsins að það liggi fyrir og verði lagt fram lögfræðiálit hvort þessi afgreiðsla standist lög um rammaáætlun. Það er ekki hægt að ljúka málinu meðan þessi efi er uppi. Mér er til efs að atvinnuveganefnd hafi aflað fullnægjandi gagna til að sýna fram á að þetta standist lög. Ég fæ ekki séð það á þeim umræðum sem ég hef heyrt um það og á þeim gögnum sem ég hef séð. Það hlýtur að vera krafa að þetta mál verði ekki einu sinni sett hér á dagskrá fyrr en þetta lögfræðiálit hefur verið fengið.

Það er líka uppi efi um aðra virkjunarkosti sem (Forseti hringir.) voru endursendir til verkefnisstjórnar en hvað varðar Hagavatnsvirkjun …