144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

afgreiðsla atvinnuveganefndar á rammaáætlun.

[13:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það má segja að að sumu leyti væri það hreinlegri stjórnsýsla að hv. þm. Jón Gunnarsson skrifaði bara viðkomandi virkjunaraðila bréf og segði að þrátt fyrir öll ákvæði hvaða laga sem er mættu þeir virkja við Hagavatn. Punktur. Þannig viljum við nefnilega hafa þetta. Það er algerlega skýrt í 3. mgr. 3. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun að hún tekur til þeirra kosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um. Það er eins augljóst brot á lögunum og nokkuð getur verið að leggja til að þessi tiltekni virkjunarkostur færist — í hvað? Færist í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þá væri miklu betra að láta rammaáætlun í friði og sýna handaflið beint. Það er það sem meiri hlutinn á að gera, ekki dulbúa þetta í eitthvert faglegt ferli, að þetta komi rammaáætlun og þeim vinnubrögðum eitthvað við. Það gerir það ekki, þetta er bara gamla handaflið í þágu virkjunar- og stóriðjuhagsmunanna, ekkert annað, (Forseti hringir.) í gegnum holdgerving (Forseti hringir.) sinn á (Forseti hringir.) Alþingi, hv. þm. Jón Gunnarsson. (Gripið fram í.) [Háreysti í þingsal.]