144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það er haft fyrir satt að Loðvík XIV., sólkonungurinn svonefndi, hafi sagt: Ríkið, það er ég. Þessi orð lýsa vel hugmyndum hans um opinbert vald. Hann taldi sig ekki þurfa að standa einum eða neinum skil á því hvernig hann færi með það og allra síst fólkinu, almenningi sem bjó í ríki hans, Frakklandi. Um það bil 140 árum seinna var annar stjórnmálamaður uppi, Jón okkar Sigurðsson. Hann leit öðruvísi á málin. Hvað sagði hann um opinbert vald? Jón sagði, með leyfi forseta:

„Þjóðin sjálf á höfuðvaldið og enginn á með að skera úr málefnum þeim, sem allri þjóðinni viðkoma, nema samkvæmt vilja flestra meðal þjóðarinnar.“

Samkvæmt vilja flestra meðal þjóðarinnar. Jón Sigurðsson var fyrir einni og hálfri öld farinn að skilja að innihaldsríkt lýðræði stendur og fellur með því að þeim sem treyst er fyrir því að fara með vald fyrir hönd og í þágu almennings fari með vald sitt af auðmýkt og tillitssemi við fólkið, allan almenning. Ég held þess vegna að Jón forseti hefði hrokkið ónotalega við ef hann hefði verið hér í gær og heyrt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segja af miklum þótta, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn ræður.“

Skítt með alla þá sem í þessu landi búa og eru ekki sammála mér, hann hefði alveg eins getað sagt það. Loðvík XVI. hefði líklegast kinkað kolli til samþykkis ef hann hefði heyrt þetta.

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að hvetja hæstv. forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra og ríkisstjórn þeirra til að sýna svolitla auðmýkt í störfum sínum, vera í liði með Jóni forseta og læra af honum um auðmýkt og ábyrgð við meðferð valds en varast valdhroka í anda sólkonungsins. Óvirðing gagnvart fólki, yfirgangur og valdhroki, er örugg leið til þess að grafa undan lýðræði. Ég vil trúa því að margir sem þessa ríkisstjórn hafa stutt vilji ekki að valdi sé beitt þannig í þeirra nafni.