144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera þannig þegar við sjáum vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnar eins og við höfum orðið vitni að að undanförnu að maður velti fyrir sér ástæðunum fyrir því hvers vegna menn þora ekki að leggja fram tillögu um slit á aðildarviðræðum fyrir þingið. Menn hafa haldið því fram hér fullum fetum og í fjölmiðlum að það sé vegna þess að minni hlutinn þvælist fyrir málunum. Ja, heyr á endemi, virðulegi forseti. Það var einfaldlega þannig á síðasta þingi að málið komst í gegnum þingið, það fór til nefndar þar sem það var svæft. Ekki eru menn að velta fyrir sér ótta við minni hlutann þegar kemur að því að rífa út úr nefndum áfengisfrumvarpið, rammaáætlun og fleiri og fleiri mál sem algjörlega er ljóst að ekki ríkir friður um í þinginu. En þegar kemur að þessu máli þá beita menn þeim rökum fyrir sig. Þá gerist það, virðulegi forseti, að hin raunverulega ástæða er að afhjúpast hægt og rólega. Við sjáum þingmann eftir þingmann í stjórnarliðinu stíga fram og lýsa því yfir að þeir séu andsnúnir þessu vinnulagi, þeir séu líka andsnúnir því að umsókn að aðildarferli verði slitið. Ég nefni hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, ég nefni líka hv. þm. Vilhjálm Bjarnason sem beinlínis gengur svo langt að haft er eftir honum á hinum ágæta vefmiðli Hringbraut að þessu megi líkja við siðrof, hvorki meira né minna.

Kann að vera að ástæðan fyrir því að menn eru það huglausir að þeir leggi ekki í að koma með þessa tillögu inn í þingið sé sú að þeir hafi ekki meiri hluta fyrir henni? Er það það sem er að afhjúpast hér, virðulegi forseti? Maður hlýtur að spyrja sig að þessu og þá ekki síst í ljósi þess að þegar tillagan um aðildarumsókn var samþykkt á sínum tíma þá var hún samþykkt af fulltrúum fimm þingflokka, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Borgarahreyfingarinnar, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það var bara einfaldlega þannig. Um hana ríkti (Forseti hringir.) þverpólitísk sátt.