144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara inn á aðeins aðrar brautir, en kannski ekki. Mig langar að ræða skýrslu Samkeppniseftirlitsins, Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði. Staða samkeppninnar 2015. Í kafla sem fjallar um að verðhækkanir verði ekki eingöngu raktar til ytri aðstæðna er samantekt með ályktunum og aðgerðum. Mig langar að gera að umræðuefni það sem segir þar m.a. um aðgerðir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að neytendur njóti styrkingar á gengi og bættrar afkomu smásala í gegnum lægra vöruverð.“

Ég held að við getum flest verið sammála um þetta, sem og þá aðgerð að birgjar og dagvöruverslun verði að endurskoða viðskiptasamninga sína með samkeppni í huga. En það stendur líka, virðulegur forseti:

„Stjórnvöld verða að beita sér fyrir aukinni samkeppni, m.a. með opnun markaða og endurskoðun á samkeppnishindrandi ákvæðum búvöru- og tollalaga …“

Það er kannski þetta, virðulegur forseti, sem mig langar að beina orðum mínum að, hvort ekki sé orðið tímabært fyrir okkur að endurskoða jafnt magntolla sem verndartolla, þó ekki sé nema í krónutölu magntollana og í prósentuvís verndartollana og lækka þá hluta báða til hagsmuna fyrir neytendur. Ég sakna þess, virðulegur forseti, í almennri umræðu í samfélaginu, þegar við ræðum kaup og kjör, að ekki skuli komið inn á að með þessum hætti geta stjórnvöld svo sannarlega létt undir með neytendum og fólkinu í landinu með því að lækka í (Forseti hringir.) krónutölu magntolla og í prósentuvís verndartollana.