144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sem hér steig í pontu á það gjarnan til að túlka orð manna út og suður, jafnvel þeirra sem hafa talsvert meira vit á þessu en við tveir. Nú hafa fræðimenn komið fram og lýst því yfir að ríkisstjórnin og ráðherrann hafi fullt vald og heimild til þess að skrifa þetta bréf og til að fara þá leið sem hér er farin. Um það vitna viðtöl í fjölmiðlum og annars staðar.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort bréf það sem hér er um að ræða útiloki að næsta ríkisstjórn eða annað þing geti tekið einhverja aðra ákvörðun varðandi það mál þá er það að sjálfsögðu ekki svo. Við getum ekkert bundið næsta þing. Það sem við erum hins vegar að gera er að við segjum við Evrópusambandið, og það er klárlega í bréfi okkar, alveg klárlega, að þessu ferli sé lokið. Ísland er ekki lengur umsóknarríki. Ísland er ekki lengur í samningaviðræðum við Evrópusambandið og ætlar ekki þar inn. Það er hins vegar annarrar ríkisstjórnar að ákveða hvort hún sækir um að nýju. Ég tel (Forseti hringir.) að ef það verður gert (Forseti hringir.) eigi það að byggjast á spurningu sem fyrst verði lögð fyrir þjóðina.